Íslenski boltinn

Kallað á dómara úr stúkunni

Örvar með spjaldið á lofti.
Örvar með spjaldið á lofti.
Það kom upp erfið staða í leik Fylkis og KR í Lautinni í gær þegar Valgeir Valgeirsson dómari meiddist hálftíma fyrir leikslok. Enginn varadómari var á leiknum og því góð ráð dýr.

Það vildi þó svo heppilega til að í stúkunni var annar úrvalsdeildardómari, Örvar Sær Gíslason, að njóta leiksins og varð hann að bjarga félaga sínum úr klípunni.

"Ég var bara að horfa á leikinn. Ég vildi ekki vera í Laugardalnum og sitja í skugga. Ég vildi fá sól. Tan og fótbolti, er það ekki fínt," sagði Örvar Sær léttur við Vísi.

"Þegar Valgeir meiddist beið ég eftir kallinu. Ég hitti þá í hálfleik og þeir vissu því af mér. Svo var kallað á mig í hátalarakerfinu og ég rauk af stað."

Örvar Sær var hvorki með búning né skó en það bjargaðist.

"Ég var bara með Ray Ban- sólgleraugu. Við Valgeir notum sömu stærð þannig að ég fór bara í skóna og búninginn hans. Ég skipti um föt bak við skýlið. Valgeir fékk svo úlpu til þess að hylja sig á leið inn í klefa. Það var ekki hægt að senda hann inn á nærbuxunum þó svo hann sé flottur."

Örvar segir að það hafi verið mjög erfitt að koma inn í leikinn en segist þó hafa verið sáttur við sína frammistöðu.

"Ég hef aldrei lent í þessu áður og þetta var mjög skrítið. Um leið og Valgeir lagðist niður hugsaði ég: "Andskotinn, ég hefði átt að fá mér bara einn hamborgara í kvöldmat." Þetta slapp samt allt."

Örvar segir samt að þetta sýni að það verði að hafa aukadómara á öllum leikjum í úrvalsdeildinni. Annað sé ekki hægt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×