Innlent

Kalla eftir samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/daníel
Stjórn Framsýnar hefur samþykkti að senda frá sér ályktun um áform Vísis að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík.

Eigendur Vísis hf., hafa ákveðið að loka starfsstöðvum sínum á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri.

Hér að neðan má lesa ályktun Framsýnar í heild sinni. 

„Framsýn, stéttarfélag ítrekar kröfu félagsins um að Vísir hf. hætti þegar í stað við áform um að leggja niður rekstur fyrirtækisins á Húsavík um næstu mánaðamót.

Gangi áformin eftir verður það reiðarslag fyrir starfsmenn, sveitarfélagið og atvinnulífið á svæðinu. Þá er rétt að minna á yfirlýsingar Vísis hf. um uppbyggingu á Húsavík þegar þeir eignuðust Fiskiðjusamlag Húsavíkur á sínum tíma. Orð skulu standa, Vísismenn!!

Jafnframt hlýtur að teljast eðlilegt, láti fyrirtækið ekki af þessum áformum, að aðilum í útgerð og fiskvinnslu á Húsavík verði boðið að kaupa þann kvóta sem Vísir eignaðist á sínum tíma við kaupin á Fiskiðjusamlagi Húsavíkur.

Þessar staðreyndir ættu jafnframt að vera stjórnvöldum áminning um að gera viðeigandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og koma þannig í veg fyrir að einstaka útgerðir geti rústað heilu byggðalögunum með því færa kvótann milli byggðalaga.

Framsýn, stéttarfélag kallar eftir samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×