Innlent

Kærleikurinn og nándin sterkari eftir eldgosið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Öskumistur sem blásið hefur yfir sunnanvert landið í dag minnti stóran hluta landsmanna á Grímsvatnagosið sem hófst á þessum degi í fyrra. Af Kambabrún mátti sjá að mistrið lá nokkuð þétt yfir Suðurlandsundirlendinu, austur í Vík var skyggnið vart nema um kílómetri, og á veginum milli Víkur og Skaftafells bara nokkrir tugir metra á köflum svo hægja þurfti ferðina.

Þetta eru upptökin, Grímsvötn í fyrra, mesta gos í heila öld úr virkustu eldstöð Íslands, og svo ákaft var gosið fyrstu dagana að neyðarástand skapaðist í Skaftárhreppi vegna svartnættis. Og menn skildu merkingu orðanna sem gamla fólkið notaði um Kötlugosið 1918, segir Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri sem rifjar þetta upp í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Sem betur fer tók þetta fljótt af, segir Eygló. Gosið stóð í viku, það tók mánuð að hreinsa og nú erum við bara brött, segir hún.

Átakanlegustu myndirnar í fyrra voru af kindunum, sem misstu sjónina þegar askan fór í augun. Þegar við vorum þarna í dag mátti líka greina öskurákir í augunum á fénu og bóndanum, Bjarna Baldurssyni á Múlakoti á Síðu, leist ekkert á stöðuna í öskurokinu í dag, nú ári síðar.

Öskufallið var mest í Fljótshverfi í fyrra og þar fór öskurykið það illa í öndunarfærin á Birni Helga Snorrasyni, bónda á Kálfafelli að hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús með lungnabólgu.

Við hittum líka ráðherrann fyrrverandi á Seglbúðum, Jón Helgason, sem grímuklæddur sópaði tröppurnar í fyrra, og við rifjuðum það upp í dag.

Eygló sveitarstjóri telur samfélagið vera sterkara á eftir. Þegar svona gerist í litlu samfélagi verði nándin og kærleikurinn svo sterkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×