Enski boltinn

Juventus og PSG vilja Teixeira en hann vill fara til Englands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alex Teixeira er að slá í gegn með Shakhtar eins og fleiri Brassar.
Alex Teixeira er að slá í gegn með Shakhtar eins og fleiri Brassar. vísir/getty

Alex Teixeira, ein af stjörnum úkraínska liðsins Shakhtar Donetsk, segir Juventus og Paris Saint-Germain á eftir sér auk Chelsea sem hefur nú þegar gert honum tilboð.

Þessi 25 ára gamli Brasilíumaður er búinn að skora 23 mörk í 23 leikjum á þessari leiktíð, en hann setti tvö í 4-3 tapi gegn Real Madrid í meistaradeildinni í vikunni.

Samlandi hans Willian fór frá Shakhtar til Chelsea og hefur verið besti leikmaður Lundúnarliðsins á þessari leiktíð. Þó stórlið frá Ítalíu og Frakklandi vilja fá Teixeira langar hann mest til Englands.

„Draumur minn er að spila á Englandi. Ég er búinn að tala við marga sem langar að spila þar því þeir telja ensku úrvalsdeildina vera þá bestu í heimi. Hún er erfiðari og ég vil mæta áskorunum á mínum ferli,“ segir Teixeira.

„Ég er ánægður með að hafa fengið tilboð frá Chelsea. Það er frábært félag en umboðsmaðurinn minn sér um þessi mál.“

„Miðað við það sem ég hef sagt hafa borist tilboð frá Chelsea, Juventus og PSG. Chelsea og Juventus eru komin lengra en PSG í samningaviðræðum. Þetta eru þrjú flott félög og ég verð ánægður hvert sem ég fer,“ segir Alex Teixeira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×