Fótbolti

Juventus gerir Higuaín að þriðja dýrasta leikmanni sögunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Higuaín skoraði 36 mörk í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Higuaín skoraði 36 mörk í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. vísir/getty
Juventus hefur fest kaup á argentínska framherjanum Gonzalo Higuaín frá Napoli.

Talið er að Juventus hafi borgað 75,3 milljónir punda fyrir Higuaín sem gerir hann að þriðja dýrasta leikmanni allra tíma. Aðeins Gareth Bale og Cristiano Ronaldo kostuðu meira þegar Real Madrid keypti þá á sínum tíma.

Higuaín skrifaði undir fimm ára samning við Juventus en hann stóðst læknisskoðun hjá félaginu á föstudaginn.

Higuaín var óstöðvandi á síðasta tímabili og skoraði 36 mörk í 35 deildarleikjum fyrir Napoli sem endaði í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Hann varð markakóngur og jafnaði 87 ára gamalt með Gino Rossetti yfir flest mörk á einu tímabili í ítölsku deildinni.

Higuaín kom til Napoli frá Real Madrid 2013 og skoraði 91 mark í 146 leikjum fyrir ítalska liðið.

Higuaín er fimmti leikmaðurinn sem Juventus kaupir í sumar á eftir Miralem Pjanic, Dani Alves, Medhi Benatia og Marko Pjaca. Juventus hefur aftur á móti misst spænska framherjann Álvaro Morata og þá er Paul Pogba að öllum líkindum á förum til Manchester United.

Juventus hefur orðið ítalskur meistari undanfarin fimm ár og liðið verður að teljast ansi líklegt til afreka á næsta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×