Lífið

Jón Gnarr verður gestur Craigs Ferguson

Bjarki Ármannsson skrifar
Jón hefur nokkrum sinnum verið til umræðu í þætti Craigs Ferguson.
Jón hefur nokkrum sinnum verið til umræðu í þætti Craigs Ferguson. Vísir/Stefán/AFP
Jón Gnarr verður gestur Craigs Ferguson í spjallþættinum The Late Late Show næstkomandi fimmtudag. Þátturinn er sýndur á CBS og er með þeim vinsælli í Bandaríkjunum en meðal gesta sem komu fram í þessari viku má nefna Larry King og Bradley Cooper.

Þess ber að geta að Jón hefur nokkrum sinnum verið til umræðu í þætti Fergusons, meðal annars þegar grínistarnir Eddie Izzard og Jim Gaffigan mættu í heimsókn. Skosk-ameríski þáttastjórnandinn virðist því hafa nokkurn áhuga á vini okkar Jóni.

Ásamt því að hafa gengt embætti borgarstjóra Reykjavíkur í heilt kjörtímabil, er Jón með vinsælustu leikurum og grínistum landsins. Á vefsíðu The Late Late Show er hann þó einfaldlega titlaður „rithöfundur.“ Hann mun samkvæmt nýbirtum gestalista deila sviðinu með öðrum rauðbirknum grínleikara, Jesse Tyler Ferguson úr sjónvarpsþáttunum Modern Family. 

The Late Late Show er ekki sýndur í íslensku sjónvarpi en það ætti að vera hægt að sjá þáttinn á heimasíðu CBS næsta föstudag. Þá er myllumerkið #LateLateShow brúklegt fyrir þá sem vilja fylgjast með á Twitter.


Tengdar fréttir

Jón Gnarr vekur heimsathygli

Ítarlegt viðtal við borgarstjórann birtist á vefmiðlinum Vice í gær. Einnig hefur tvisvar verið fjallað um hann í spjallþætti á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS að undanförnu. Borgarstjórinn á Íslandi er vinsæll erlendis. Jón segist elska mannfólk eins og tölvunördar elska tölvur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×