Fótbolti

Jón Daði: Geggjað gaman að vinna þá í fyrri leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson ræddi við fjölmiðla í dag.
Jón Daði Böðvarsson ræddi við fjölmiðla í dag. Vísir/ÓskarÓ
Jón Daði Böðvarsson átti frábæran leik þegar Ísland vann Holland í fyrri leiknum á Laugardalsvelli og gerir tilkall til þess að fá að byrja leikinn á Amsterdam Arena á morgun.

„Það var geggjað gaman að vinna þá í fyrri leiknum en eins og við höfum allir verið að tala um þá er það bara í fortíðinni. Núna erum við hérna í Holland og nýr leikur framundan," sagði Jón Daði.

„Við vorum fljótir að koma okkur inn í þetta enda er rútínan sú sama og venjulega. Það er ekkert öðruvísi sem er gott. Stemning er síðan góð og menn að gera sig klára fyrir leikinn á morgun," sagði Jón Daði.

Íslenska liðið æfði í fyrsta sinn á Amsterdam Arena í dag en tvær fyrstu æfingar liðsins í Hollandi fóru fram á æfingasvæði S.V. Rap.

„Ajax-völlurinn er frægur völlur og það er gaman að koma inn á þennan flotta leikvang og það er mikil tilhlökkun í manni að fá að spila þarna á morgun," sagði Jón Daði. Hann veit líka að 3000 Íslendingar ætla að gera sitt á morgun.

„Við þekkjum það vel hvað Íslendingarnir láta vel í sér heyra á pöllunum. Þrjú þúsund Íslendingar á leik í útlendum er heldur betur framar öllum vonum. Þetta er geggjað og það verður rosalega gaman að vita af þeim á vellinum,“ segir Jón Daði.

Jón Daði var ekki í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum á móti Kasakstan og Tékklandi en kom inná sem varamaður í báðum leikjum.

„Ég hef ekki hugmynd um hvort ég fái að spila og það er alltaf þannig. Þetta verður bata tilkynnt á morgun eða í kvöld. Ég er bara rólegur og ætla ekkert að fara fram úr sjálfum mér. Ef ég byrjar þá gerir maður sig hundrað prósent klárann og líka ef maður byrjar ekki. Þetta verður bara spennandi. Þjálfarnir velja þá sem henta fyrir komandi leik og þannig hefur það alltaf verið,“ segir Jón Daði.

„Það væri geggjað að fá að byrja á Amsterdam Arena en að fá bara að vera í þessum hóp er  ógeðslega gaman,“ segir Jón Daði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×