Innlent

Jóhanna segir eitthvað að í samskiptum Dróma og viðskiptavina þeirra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, telur rétt að grípa til aðgerða gegn Dróma vegna kvartana viðskiptavina og vill skoða hvort ástæða sé til að flytja eignasafn félagsins til Seðlabankans eða Arion banka.

Þetta kom fram í svari forsætisráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í dag.

Jóhanna sagði að saga Dróma væri sorgarsaga frá upphafi.

„Það er öllum ljóst að að það er eitthvað mikið að í samskiptum dróma við þá lántaka sem undir félagið heyra og úr þeim vanda verður að leysa og þessi mál hafa verið lengi í skoðun og ég tel að það þurfi að grípa til aðgerða í þessu máli," sagði Jóhanna.

Málefni Dróma eru nú til skoðunar hjá eignarhaldsfélagi Seðlabankans og ráðherranefnd um skuldavanda heimilanna.

„Og ég held að menn hljóti að skoða það hvort það sé ástæða til þess að flytja eignasafnið frá dróma með einhverjum hætti, til seðlabanka eða Arion banka," sagði Jóhanna.

Drómi sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna ummæla forsætisráðherra. Vísað er í skýrslu fjármálaeftirlitsins sem birt var opinberlega í gær en þar eru ekki gerðar alvarlega athugasemdir við starfsemi félagsins. Í yfirlýsingu Dróma segir að niðurstaðan staðfesti að starfshættir félagsins séu í samræmi við kröfur FME um heilbrigða viðskiptahætti.

Hlynur Jónsson, stjórnarformaður Dróma undrast því yfirlýsingar forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×