Lífið

Jóhanna fær annað tækifæri

„Þetta er þvílíkur heiður og ofsalega gaman að heyra," segir söngkonan Jóhanna Guðrún.

Lag hennar, Nótt, hefur verið valið til þátttöku í OGAE Second Chance-keppninni í Svíþjóð í lok maí. Þar taka þátt nítján lög sem komust ekki í lokakeppni Eurovision í Þýskalandi og Eurovison-aðdáendum þykja verðug til að fá annað tækifæri. Því er um nokkurs konar B-Eurovision-keppni að ræða. Hera Björk vann einmitt þessa keppni árið 2009 með lagið Someday sem hún flutti fyrir hönd Danmerkur.

Þeir aðdáendur sem tóku þátt í valinu tilheyra þeim 150 þjóðum sem geta ekki tekið þátt í Eurovision-keppninni sökum landfræðilegrar stöðu auk sjö til átta landa sem taka þátt í keppninni en eiga ekki OGAE-aðdáendaklúbb og er Ísland þar á meðal. Yfir 90% þeirra sem tóku þátt í kosningunni völdu lag Jóhönnu sem framlag sitt í keppnina. Það kemur ekki á óvart miðað við óánægju margra erlendra Eurovision-aðdáenda yfir því að Nótt skyldi ekki komast í úrslit Eurovision. „Það er ótrúlegt hvað fólk er trygglynt þarna úti. Maður er rosalega þakklátur fyrir að fólk skuli ennþá muna eftir manni því í þessum bransa er maður gleymdur á fimm mínútum," segir Jóhanna.

Hún er á leiðinni til Svíþjóðar á miðvikudaginn þar sem hún syngur með Friðriki Ómari á íslenskum tónleikum í Stokkhólmi. „Friðrik er yndislegur og ég er heppin að fá að syngja með honum. Þetta verður æðislega gaman." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×