Innlent

Jákvæðari andi í Alþingishúsinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þingkonurnar þrjár hafa mislanga reynslu af störfum á Alþingi. Katrín Júlíusdóttir hefur setið þar síðan 2003, Ragnheiður Ríkharðsdóttir síðan 2007 en Jóhanna María síðan 2013.
Þingkonurnar þrjár hafa mislanga reynslu af störfum á Alþingi. Katrín Júlíusdóttir hefur setið þar síðan 2003, Ragnheiður Ríkharðsdóttir síðan 2007 en Jóhanna María síðan 2013. Visir/Anton brink
Kosið verður til Alþingis þann 29. október og ráðgert er að ljúka þingstörfum núna í lok mánaðar. Minnst þriðjungur núverandi þingmanna mun hverfa frá störfum eftir kosningar. Þingkonurnar Katrín Júlíusdóttir úr Samfylkingunni, Ragnheiður Ríkharðsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum og Jóhanna María Sigmundsdóttir úr Framsóknarflokki hafa setið mislengi á þingi. Katrín lengst, eða frá árinu 2003, Ragnheiður frá árinu 2007 en Jóhanna frá 2013. Allar eru þær nú að hverfa á braut.

Þær eru allar sammála um það að þingstörfin beri þess merki þessa dagana að það er farið að þetta þing er farið að styttast í annan endann.

Lausnarmiðuð hugsun

Katrín: Maður er algjörlega farinn að finna það. Nú eru allir flokkarnir að stilla upp á lista og það eru búin að vera prófkjör og þá eru komin svolítið önnur tilfinning í húsið og störfin. En mér finnst allt annar og jákvæðari andi í húsinu núna heldur en oft áður við þinglok. Það er mikill vilji til þess að klára þetta sómasamlega.“ Hún segir málin ekki snúast um það núna að semja um það hvaða mál verði kláruð og hvaða mál sitji eftir heldur að finna í sameiningu út úr því hvaða mál sé raunverulega hægt að klára á þeim tíma sem eftir er.

Ragnheiður: „Já, ég tek undir það og að er eiginlega búið að vera frá því að við lukum þingstörfum síðastliðið vor. Þá var líka annars konar andrúmsloft í þinginu. Við vissum þá að við færum inn í kosningar í október.“



Þarf að hafa gaman af fólki

Þingkonurnar þrjár eru allar sammála um að tíminn á Alþingi hafi verið mjög skemmtilegur.

Katrín: „Starfið er fjölbreytt og mjög skemmtilegt og þú ert að hafa áhrif. Ég mæli með þessu við hvern sem er og hvet fólk til að taka þátt í stjórnmálum.“

Undir þetta tekur Ragnheiður. „Mér hefur þótt þetta ótrúlega skemmtilegur tími. En þú þarft að hafa gaman af fólki. Þú þarft að vera félagslyndur og opinn. Þú þarft að hafa gaman af að vera innan um fólk, að tala við fólk og tala um málefni.

Jóhanna: „Það er rosalega erfitt að fara á þing ef þú átt erfitt með samskipti.“

Landsdómsmálið ömurlegt

Blaðamaður spyr þær um eftirminnilegustu atvikin frá þingmannsferlinum.

Ragnheiður: „Eitthvað sem stendur upp úr og eitthvað sem stendur niður úr. Þá er það landsdómsmálið í mínum huga. Það var mjög þarft og gott að fá rannsóknarskýrslu Alþingis. Hún flutti okkur margan boðskap og margt sem þar stóð þurfti að fara í gegn um og skoða.“ Framhaldið, að taka ákvörðun um að ákæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn hafi hins vegar ekki verið góð. „Mér fannst lúkning þess máls ömurleg fyrir þingið í heild sinni. Ég vildi óska þess að ég hefði ekki þurft að taka þátt í því ferli.“

Katrín segir að landsdómsmálið hafi verið erfitt fyrir sinn flokk líka. „Það hefur haft áhrif fram á daginn í dag og mun örugglega gera það áfram.“

Katrín segir þó eftirminnilegasta tímann fyrir sig í pólitíkinni hafa verið þegar hún var iðnaðarráðherra og við Íslendingar upplifðum eldgos ofan í bankahrunið. „Ég var ferðamálaráðherra á þessum tíma og allar hótelbókanir og flugbókanir stoppuðu. Það var að koma sumar og ferðaþjónusta var enn þá árstíðabundin. Við tókum okkur saman, stjórnvöld og greinin, og ákváðum að snúa vörn í sókn og hrinda af stað verkefninu Inspired by Iceland.“

Katrín segir þetta hafa verið rosalega skemmtilegan tíma. „Þarna sá maður að opinberi geirinn og einkageirinn geta snúið bökum saman og gert hlutina vel.“

Jóhanna segir miklar hræringar hafa orðið í þingflokki sínum á þeim tíma sem hún hefur setið á þingi.

„Það erfiðasta sem ég hef gert er að sitja á þingi og þurfa að halda áfram að vinna öll þessi góðu mál sem hafa verið að koma inn á meðan þetta var í gangi hjá okkur.“ Þar vísar Jóhanna í forsætisráðherraskiptin og þá atburði sem leiddu til þeirra.

„En það sem stendur upp úr á mínum þingferli er tíminn í Norðurlandaráði. Það innlegg sem ég náði að koma með fyrir Íslands hönd þar inn og er enn verið að vinna að í dag. Meðal annars um heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum.“

Hefði orðið þrusuráðherra

Ragnheiður hefur verið þingmaður í níu ár og blaðamaður spyr hana hvort hún sakni þess ekkert að hafa ekki orðið ráðherra.

„Það er kannski ekki hægt að tala um að maður sakni einhvers sem maður hefur ekki fengið. En mér er engin launung á því að ég taldi að ég hefði alla burði til þess að fara inn í ráðherrastól þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsóknarmönnum og ég taldi mig líka hafa alla burði til þess að taka við þegar Hanna Birna fór frá. En svona ákvarðanir eru teknar af formanni flokksins og varaformanni og þeirra mat var annað,“ svarar hún.

Katrín: „Ég veit að Ragnheiður hefði orðið þrusuráðherra.“ En Katrín er ekki á því að það hafi verið hápunktur ferils síns að verða ráðherra. „Vissulega er það stór viðburður og ég hafði gaman af því að vera ráðherra. Það hentaði mér vel og ég hafði gaman af starfinu í iðnaðarráðuneytinu og mér gekk vel í því.“ Hún segir þó alveg ljóst að það sé jafn mikilvægt að vera góður þingmaður og að vera góður ráðherra. „En ég skal alveg viðurkenna það að maður kemur meiru í verk og hraðar inni í ráðuneyti heldur en inni í þinginu. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið toppurinn á mínum ferli en það var sannarlega stór hluti af honum.“

Jóhanna María er með fastmótaðar skoðanir á því hvernig hún ætlar að verja tímanum eftir Alþingi.

„Ég er búin að vera í Háskólanum á Bifröst og er núna að klára fyrsta árið í miðlun og almannatengslum. Ég ætla að vinda mér í það að klára háskólanámið.“ Að auki rekur hún kúabú með foreldrum sínum og segist því alls ekki verða verkefnalaus

Katrín: „Eina ákvörðunin sem ég hef tekið er að taka enga ákvörðun fyrr en ég er búin að vera í fríi í nokkrar vikur. Þannig að ég ætla að byrja á því að taka mér frí í nokkrar vikur og svo ætla ég bara að fara að leita mér að einhverri skemmtilegri vinnu. Ég kem úr einkageiranum og langar þangað aftur, hvort sem ég er hérlendis eða erlendis.“

Ragnheiður hefur ekki tekið neinar ákvarðanir heldur. „Ég ætla að njóta þess að eiga daginn fyrir mig og mína. Hins vegar ef eitthvað kemur upp í hendurnar á mér að þessu þingi loknu og einhver vill ráða mig til starfa í eitthvað, þá er ég alveg tilbúin til þess að skoða það. En í augnablikinu ætla ég ekki að fara að ráða mig í eitt né neitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×