Enski boltinn

ITV framleiðir sjónvarpsþætti um Bobby Moore

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breska sjónvarpsstöðin ITV er með sjónvarpsþætti um Bobby Moore, fyrrverandi fyrirliða enska landsliðsins, í smíðum.

Þættirnir, sem verða þrír, eru byggðir á æviminningum eiginkonu Moores, Tinu, en þau voru eitt helsta stjörnupar Englands á sínum tíma. Þættirnir verða teknir upp í Manchester í sumar.

Moore var fyrirliði enska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari, í fyrsta og eina skiptið, á heimavelli fyrir 50 árum. Hann lék alls 108 landsleiki og skoraði tvö mörk.

Í sjónvarpsþáttunum, sem bera nafnið Tina and Bobby, verður einblínt á hjónaband þeirra og lífið í sviðsljósinu, sérstaklega í kjölfar heimsmeistaratitilsins 1966.

Tina og Bobby kynntust þegar þau voru unglingar og gengu í hjónaband 1962. Leiðir þeirra skildu 1984 en þau eignuðust tvö börn. Bobby lést níu árum seinna, aðeins 51 árs að aldri, eftir baráttu við krabbamein.

Lorne MacFadyen fer með hlutverk Bobbys en Michelle Keegan leikur Tinu. Patsy Kensit leikur móður hennar og David Bamber fer með hlutverk Alfs Ramsey, þjálfara enska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×