Skoðun

Íþróttir í skjóli landráns og mannréttindabrota

Sema Erla Serdar skrifar
Íslenska landsliðið í handknattleik tekur í dag á móti því ísraelska í undankeppni EM 2016. Ísraelska landsliðið er mætt hingað til lands sem fulltrúar ríkis sem þekkt er fyrir grimmilegar árásir sínar á saklausa borgara Palestínu, fyrir aðskilnaðarstefnu, hernám og rán á palestínsku landi. Það er óviðeigandi sem og óhugnanlegt að ríki sem kemur fram af svo mikilli grimmd gagnvart annarri þjóð skuli fá að senda fulltrúa sína á íþróttakappleiki hingað til lands.

Ísrael er eitt af örfáum ríkjum í heiminum sem hefur herskyldu jafnt fyrir karla og konur og er herskylda í Ísrael þrjú ár fyrir karlmenn og tvö ár fyrir konur. Því er verið að taka á móti tilvonandi og fyrrverandi hermönnum í her sem ítrekað stundar mannréttindarbrot og ofbeldi á Palestínumönnum og hefur að mati mannréttindarsamtaka framið stríðsglæpi í nýafstaðinni árás sinni á Gaza.

Í 52 daga stórsókn Ísraela á Gaza á þessu ári létu um 2100 manns lífið, flestir óbreyttir borgarar og þar af meira en 500 börn. Ísraelsmenn láta þó ekki staðar numið þar en stuttu eftir að árásum þeirra á Gaza lauk kynntu ísraelsk stjórnvöld áætlun sína um byggingu nýrrar landtökubyggðar í Austur-Jerúsalem, á landi sem tilheyrir Palestínumönnum. Í fyrradag tilkynnti svo ísraelska ríkisstjórnin að 1000 nýjar íbúðir verði byggðar fyrir ísraelska landræningja í hverfum Palestínumanna í Austur-Jerúsalem.

Í dag býr meira en hálf milljón Ísraelsmanna á palestínskum svæðum sem heyra undir hernumið land, en það er land sem Ísraelar hafa stolið af Palestínumönnum og ísraelskir landnemar hafa ólöglega sest að á. Flestir búa þeir á Vesturbakkanum, eða um 300.000 þeirra, sem dreifast á fleiri en hundrað landnemabyggðir. Flestar þessar landnemabyggðir eru byggðar á svæðum þar sem Ísraelsmenn hafa beitt hervaldi og ofbeldi til þess að gera landið upptækt.

Þrátt fyrir það flytjast Ísraelar ekki einungis búferlum á stolin landsvæði, heldur starfa stærstu og helstu fyrirtæki Ísraelsmanna á hernumdum svæðum og njóta þannig ákveðinna forréttinda á kostnað Palestínumanna. Sem dæmi má nefna ísraelska fyrirtækið SodaStream, sem flestir Íslendingar ættu að þekkja, en frá árinu 1996 hefur SodaStream verið með stærstu verksmiðjuna sína í Mishor Adomim landnemabyggðinni á Vesturbakkanum.

Í 49. grein Fjórða Genfarsáttmálans er skýrt tekið fram að bannað sé fyrir þegna hernámsveldis að setjast að á herteknum svæðum. Í 46. grein Haag sáttmálans er skýrt tekið fram að ólöglegt er að framkvæma eignaupptöku á landi og öðrum hlutum í einkaaeign á hernumdum svæðum. Í ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 465 er talað um að flutningur Ísraelsmanna á eigin þegnum til hernámsvæðanna sé alvarleg hrindrun í samningaviðræðum um frið og er krafist þess að Ísraelsmenn flytji til baka.

Það er beinlínis andstætt íþróttaandanum að bjóða ísraelskt landslið velkomið til Íslands, á sama tíma og komið er í veg fyrir að palestínskir íþróttamenn geti stundað íþróttir eða leikið fyrir land sitt og þjóð. Hernám Ísraelshers í Palestínu og skerðing á ferðafrelsi íbúa herteknu svæðanna, sem og árásir á íþróttafólk, fangelsanir og eyðilegging á íþróttamannvirkjum, kemur í veg fyrir að palestínsk landslið og íþróttamenn geti keppt í sínu heimalandi og í fjölmörgum tilvikum á erlendum vettvangi. Dugar þar að líta til palestínska karlalandsliðsins í knattspyrnu, en liðsmenn þess hafa verið fangelsaðir og neitað um ferðaheimildir.

Þá harmar hreyfingin BDS Ísland - sniðganga fyrir Palestínu þá staðreynd að verið sé að bjóða hingað til lands ísraelska landsliðinu á meðan þarlend stjórnvöld þverbrjóta alþjóðalög og mannréttindasáttmála, sem bæði Ísrael og Ísland eiga aðild að, sem og samþykktir Sameinuðu þjóðanna, með áratuga löngu hernámi og landráni í Palestínu. Ekkert ríki í heiminum hefur brotið fleiri samþykktir Sameinuðu þjóðanna en Ísrael, og ekkert bendir til þess að þeir hafi hug á að stöðva slíkt, samanber nýjar landtökubyggðir í Austur-Jersúalem.

Með því að bjóða ísraelska landsliðið velkomið hingað til lands er Ísland og íslenska íþróttahreyfingin því miður í samstarfi við ríki sem ítrekað fremur mannréttindabrot og stríðsglæpi. Ísraelskar íþróttahreyfingar taka beinan þátt í að viðhalda, verja eða hvítþvo kúgun Ísraela á Palestínumönnum á sama tíma og Ísrael reynir gagngert að fegra ímynd sína á alþjóðavísu í gegnum slíkt samstarf.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×