Innlent

Íslenska ríkið sýknað af 29 milljóna kröfu ekkju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslenska ríkið var sýknað af 29 milljóna króna bótakröfu.
Íslenska ríkið var sýknað af 29 milljóna króna bótakröfu. vísir/gva
Íslenska ríkið hefur verið sýknað af rúmlega 29 milljóna króna bótakröfu ekkju manns sem lést í október 2011. Taldi konan að starfsmenn á Landspítalanum hefðu sýnt af sér stórfellt gáleysi og þá einkum ónefndur skurðlæknir.

Með háttsemi sinni hefði hann orsakað mistök sem leiddu til dauða eiginmanns hennar. Vegna dauða hans hefði hún orðið fyrir beinu fjártjóni og miska en í stefnunni var fullyrt starfsmenn spítalans hefðu sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Maðurinn leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítalans þann 28. september 2011 vegna kviðverkja og ógleði og var lagður inn á meltingar- og nýrnadeild sjúkrahússins. Eftir tíu daga innlögn og meðferð á sjúkrahúsinu var hann útskrifaður þann 7. október. Sama dag hneig hann niður á heimili sínu og komst ekki til meðvitunar á ný. Hann var úrskurðaður látinn sex dögum síðar.

Í niðurstöðu dómsins segir að að frátöldum tveimur þáttum hafi maðurinn fengið viðeigandi læknismeðferð þann tíma sem hann dvaldist á sjúkrahúsinu. Var fallist á það með íslenska ríkinu að skilyrði bótareglna um orsakatengsl væru ekki fyrir hendi. Var ríkið því sýknað af kröfum ekkjunnar en hvor aðili þurfti að bera sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Nicholas J. Cariglia, sérfræðingi í lyf- og meltingarlækningum, og Þórði Ægi Bjarnasyni, sérfræðingi í skurðlækningum. Dóminn í heild má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×