Innlent

Íslandsauglýsing Jagermeister bönnuð

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Mennirnir renndu sér um háar íslenskar öldur í blautbúningum.
Mennirnir renndu sér um háar íslenskar öldur í blautbúningum. Vísir/Skjáskot
Stofnun sem hefur eftirlit með auglýsingum og birtingu þeirra í Bretlandi hefur nú bannað auglýsingu Jägermeister sem tekin var upp á Íslandi.

Í auglýsingunni sést hópur manna á ferð sinni um snævi þakið Ísland. Vinirnir ganga á fjöll og að lokum fer svo að þeir klæða sig í blautbúninga og dýfa sér í ísílagðan sjóinn, hver um sig með brimbretti í hönd.

Eftir að hafa rennt sér um öldurnar í dágóða stund halda vinirnir fimm í kofa undir fjöllum, þar sem þeir renna niður skoti af Jägermeister.

Deilt um meiningu auglýsingarinnar

Advertising Standards Authority (ASA), eftirlitsstofnunin fyrrnefnda, fékk ábendingu frá bresku auglýsingaráði ungmenna sem benti á að auglýsingin sýndi óábyrga neyslu áfengis.

Ungmennaráðið vildi meina að auglýsingin tengdi áfengisneyslu við djarfa og mögulega óábyrga hegðun, og gæfi í skyn að áfengisneysla væri lykillinn að félagslegri velgengni.

Þessum fullyrðingum voru menn hjá Jägermeister ekki sammála. Fullyrtu þeir þá að hegðun mannanna í myndbandinu væri á engan hátt óábyrg. Í auglýsingunni hefðu mennirnir ekki sést neyta áfengis áður en þeir dýfðu sér í napurt hafið.

Að lokum ákvað ASA að banna auglýsinguna á þeim forsendum að auglýsingin tengdi saman áfengi og djarfa og óábyrga hegðun.

Jägermeister neyddist til að taka auglýsinguna niður af Youtube-síðu sinni, en hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna á annarri Youtube-rás.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×