Skoðun

Ísland hið góða

Herdís Jónsdóttir skrifar
Lífið fer í hringi. Enn og aftur er svartasta skammdegið skollið á með öllum þeim stóru og smáu verkefnum sem bíða okkar, stjórnar­myndun, hugsanlegum kenn­araverkföllum, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og fleiri stórum málum sem fylgja okkur inn í veturinn, að viðbættum litlum verkefnum eins og að velja jólagjöf handa Fríðu frænku, setja vetrardekk undir bílinn og fleira.

Við Íslendingar höfum það alla jafna gott, búum við tjáningarfrelsi sem skilar sér aldrei betur en núna þar sem samfélagsmiðlar, sem eru tiltölulega nýir af nálinni, hafa rutt sér til rúms.

Á spítalinn að fara eða vera, flugvöllinn burt eða ekki, laga vegi og þá hvaða vegi, skattleggja meira eða minna, hvernig skal vinna með fjölgun ferðamanna og svona mætti lengi telja upp. Við lestur allra þessara nútímamiðla, hættir okkur til að draga upp frekar gráleita mynd, og sumir reyndar mjög dökka mynd af ástandinu á Íslandinu góða. En kannski er ekki allt sem sýnist.

Glöggt er gests augað segja sumir, og kannski er eitthvað til í því. Heimsóknir útlendinga til Íslands hafa aldrei verið fleiri frá upphafi byggðar, og ekki koma þeir hingað að ástæðulausu.

Fæðingarárið mitt 1965 voru Íslendingar um 193.000, en í dag um 330.000, sem er um 70% aukning á hálfri öld. Árið 1965 komu 28.879 ferðamenn til landsins og árið 2015 voru þeir 1.289.140 eða um 4.350 % aukning og ekkert lát á skv. spám. Skv. Alþjóðaferðamálastofnun var Evrópa vinsælasti heimshlutinn hjá ferðalöngum árið 2015, um 610 milljónir manna heimsóttu álfuna eða um 52% af heildarfjölda ferðalanga. Og hvers vegna streyma ferðalangar til Íslands spyrja margir. Ég held að margt tínist til. Gott markaðsstarf ferðaþjónustunnar, stórkostleg náttúra, samfélagsmiðlarnir sem ferðamenn nota, öruggt land að heimsækja, menning, hreint loft, græn orka, og fleira.

Að þessu sögðu sjáum við kannski að þrátt fyrir öll litlu og stóru verkefnin sem bíða okkar, og grámann á samfélagsmiðlunum þá ættum við kannski að líta í eigin barm og vera þakklát fyrir það að búa í jafn gjöfulu landi sem Ísland er, landinu sem er í fyrsta sæti ár eftir ár skv. friðarvísitölunni (GPI), og horfa bjartsýn fram á veginn.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×