Fótbolti

Ísland fékk ekki enskan greiða | Markalaust gegn Slóvakíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Vardy á fleygiferð með boltann.
Jamie Vardy á fleygiferð með boltann. Visir/Getty
England endaði í öðru sæti B-riðils á EM í Frakklandi eftir markalaust jafntefli gegn Slóvakíu í kvöld. Wales vann öruggan sigur á Rússlandi í hinum leik riðilsins og komst á toppinn.

England mun því mæta liðinu sem endar í öðru sæti í F-riðli, riðli Íslands, í 16-liða úrslitum keppninnar. Ísland er sem stendur í öðru sæti F-riðils og spilar gegn Austurríki á miðvikudag.

Englendingar stjórnuðu leiknum gegn Slóvakíu í kvöld frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir fengu mun fleiri opin færi í fyrri hálfleik og voru klaufar að fara ekki inn til búningsklefa með forystu.

Jamie Vardy komst í gott færi eftir að hafa sloppið einn í gegn og Jordan Henderson átti einnig hættulegt skotfæri í fyrri hálfleik en Matus Kozacik varði vel í bæði skiptin. Englendingar voru þar að auki nálægt því að búa til hættuleg færi en síðasta sendingin sveik þá oft.

Roy Hodgson gerði sex breytingar á byrjunarliði Englands frá síðasta leik og kom fyrirliðinn Wayne Rooney inn á sem varamaður snemma í síðari hálfleik. Dele Alli og Harry Kane komu einnig inn á en eftir því sem leið á leikinn varð varnarmúr Slóvakíu þykkari og þykkari.

Englendingum gekk afar illa að koma boltanum inn í teig og skapa hættuleg færi. Varnarmenn Slóvakíu hentu sér ítrekað fyrir tilraunir Englendinga og reyndi lítið á Kozacik í marki Slóvakíu í síðari hálfleiknum. Besta færið fékk Alli en skot hans var varið á línu.

Enskir áhorfendur voru magnaðir á Stade Geoffroy Guichard í kvöld og hvöttu sína menn óspart áfram, sérstaklega undir lok leiksins. En þrátt fyrir þennan góða stuðning náðu ensku leikmennirnir ekki að finna þann kraft sem þurfti til að brjóta vörn Slóvakíu á bak aftur.

Slóvakía endar því með fjögur stig í riðlinum en hefði liðið tapað hefði legið ljóst fyrir að Ísland myndi duga jafntefli til að komast áfram í 16-liða úrslitin úr F-riðli. Enda fögnuðu Slóvakar vel og innilega í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×