Skoðun

Ísland er landið

Marta Eiríksdóttir skrifar
Það er gott að búa á Íslandi. Ég finn það svo vel þegar ég hef prófað að búa í útlöndum. Þá kann ég enn betur að meta allt íslenskt. Íslenska þjóðarsálin er partur af mér. Kraftur, sköpun og þrautseigja, allt þetta einkennir mig sem Íslending.

Það er líka gott að upplifa íslenskar hefðir heima á Íslandi í sínu rétta umhverfi þegar ég hef búið í Noregi undanfarin fjögur ár. Einfaldir hlutir eins og að borða rúgbrauð með þykku íslensku smjöri og plokkfisk. Normalbrauð með osti. Ferskan fisk. Harðfisk. Hangikjöt og uppstúf. Sviðasultu og slátur með rófustöppu. Lambalæri. Egils malt og appelsín. Gamaldags páskaegg frá Nóa Síríus. Lesa íslensku dagblöðin. Fara í sund og heita potta. Drekka vatn úr krana. Leyfa sér þann munað að fara kannski einu sinni á ári í Bláa lónið. Heyra íslenskt mál talað alls staðar. Sjá íslenska dagskrárgerð í sjónvarpi eða hlusta á RÚV.

Aðfangadagskvöld klukkan sex. Gamlárskvöld, brennur og rakettur. Þrettándinn. Jólahefðir Íslendinga eru heldur engu líkar. Grunnskólar og leikskólar klæðast jólabúningi. Hátíð í bæ. Börnin flytja fallegan helgileik um fæðingu Jesú. Íslendingar hafa haldið í þá sterku hefð að virða hvíld og heilög jól í faðmi fjölskyldunnar. Fjölskylda fram yfir túrista. Allt er svo einstaklega hátíðlegt á Íslandi um jól og jafnvel páska hjá þeim sem enn virða helgihald upprisunnar. Ísland er frábært land, náttúran er falleg og hrá, veðrið hressandi. Ísland er landið mitt.

En það er vont að búa á Íslandi ef maður er alltaf að kvarta og kveina, sér ekkert gott í því sem er að gerast í kringum mann og vælir endalaust. Þá er líklega best að flytja úr landi og kynnast lífsháttum annarrar þjóðar. Þá er kominn tími til að hrista upp í sjálfum sér og gá hvort það sé grænna hinum megin, læra eitthvað nýtt og vonandi finna gleði sína á ný.

Nú er gullæði á Íslandi vegna fjölgunar erlendra ferðamanna til landsins. Allir ætla að græða. Ráða til sín ódýrt erlent vinnuafl og túristarnir spyrja hvar Íslendingarnir séu. Ég spyr, hvers vegna erum við ekki með íslenskt starfsfólk í ferðaþjónustunni og minnkum atvinnuleysið? Það er gaman að taka á móti gestum og sýna þeim gersemar landsins en útlendingar vilja flestir sjá og upplifa þetta séríslenska og kynnast um leið þjóðinni sjálfri.

Svo má ekki gleyma því að flestir Íslendingar búa enn þá sjálfir allt árið í landinu sínu. Þeir eiga rétt á því að umgangast landið sitt eins og áður án þess að greiða himinháar upphæðir fyrir. Ísland er jú fyrst og fremst fyrir íbúa landsins.

Það er áríðandi að halda jarðsambandi á meðan þessi áhugi útlendinga gengur yfir. Halda ró sinni og ekki gleyma sér í græðgi, nóg höfum við lært.

Höldum í það sem er íslenskt, það vekur einnig forvitni túrista. Þegar ég ferðast til útlanda þá vil ég kynnast því sem er ekta og tilheyrir menningu hvers lands. Ég hef engan áhuga á að skoða tilbúið umhverfi. Verum því ekta, ánægð með okkur, öndum djúpt og róum okkur aðeins niður. Leyfum Íslandi fyrst og fremst að vera land íslensku þjóðarinnar og varðveitum um leið þjóðararfinn okkar.


Tengdar fréttir

Hvert rennur auðlindaarðurinn?

Fjármálaráðherra hefur tekið upp hugmynd um stofnun sérstaks auðlindasjóðs sem væri ekki hluti ríkissjóðs heldur skýrt afmarkaðir fjármunir í ríkisreikningi. Einn mikilvægur munur er hins vegar á fyrri hugmyndum og hugmyndum fjármálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×