Viðskipti innlent

Ísland eftirsóknarvert fyrir erlenda fjárfesta

Sæunn Gísladóttir skrifar
Paul Nillesson, hagfræðingur og eigandi í PriceWaterhouse Coopers í Hollandi.
Paul Nillesson, hagfræðingur og eigandi í PriceWaterhouse Coopers í Hollandi. Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
„Ísland er eftirsóknarvert fyrir erlenda fjárfesta einkum vegna endurnýjanlegrar orku, sjávarútvegsins, vaxandi ferðaþjónustu og háu menntunarstigi þjóðarinnar,“ þetta kom fram í máli Paul Nillesson, hagfræðings og eiganda í PriceWaterhouse Coopers í Hollandi, á fundi um ívilnanir til nýfjárfestinga sem haldin var í Háskóla Íslands á föstudag. Yfirskrift fundarins var „Er eftirsóknarvert að fjárfesta á Íslandi?“ og stóðu Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, PriceWaterhouse Coopers, Landsvirkjun og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands að fundinum. Aðrir framsögumenn á fundinum voru, Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, og Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla íslands. Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Íslandsbanka stýrði fundi og pallborðsumræðum.

Fram kemur í tilkynningu að Paul sagði jafnframt að erlend fjárfesting hérlendis væri lág miðað við önnur lönd í Evrópu. Hann talaði um að hérlendis væru stífar reglur varðandi erlendar nýfjárfestingar, sambærilegar við Rússland og Mexikó. Reglurnar væru stífar einkum í þremur atvinnugeirum í samanburði við önnur OECD lönd, hann nefndi sjávarútveginn, orkugeirann og flugsamgöngur, en í þeim geira getur erlend fjárfesting einungis numið að hámarki 49 prósent. „Ísland ætti að kortleggja þá geira sem væru hentugir til að laða að erlenda fjárfestingu með það að markmiði að stuðla að virðisaukningu í þeim geirum. Paul sagði að það fælust tækifæri í því fyrir Ísland að byggja á sínum styrkleikum í uppbyggingu atvinnulífsins, rafvæða samgöngur og stuðla markvisst að uppbygginu græns hagkerfis. Ennfremur eru mikil tækifæri í því að laða erlent fjármagn til landsins í gegnum sölu á raforku um sæstreng sagði Paul.

Þarf að búa um hnútana

Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, opnaði fundinn og sagði í ávarpi sínu að stjórnvöld þurfa að búa þannig um hnútana að hér geti starfað öflug og samkeppnishæf fyrirtæki. Hún sagði að virði alþjóðageirans væri enn of lítið hérlendis miðað við önnur lönd. „Best væri að vera án ívilnana og stefna frekar að lágum sköttum og tryggja almennt gott atvinnuumhverfi, en við erum því miður ekki komin þangað. Þar til því markmiði er náð þarf að beita sömu aðferðum og þau lönd sem eru að laða til sín nýfjárfestingar.“ Ragnheiður Elín sagði að draga þurfi lærdóm af verkefnum líkt og verkefni PCC vegna byggingar og reksturs kísilvers á Bakka við Húsavík. „ Á undanförnum árum hefur orðið alger efnahagslegur viðsnúningur á Íslandi og þær áskoranir sem ný ríkisstjórn mun standa frammi fyrir eru af allt öðrum toga en við stóðum frammi fyrir þremur árum. Ísland er í eftirsóknarverðri stöðu og við getum valið fjárfestingarverkefni sem fjölgar tækifærum, eykur þekkingu og fjölbreytileika íslensks atvinnulífs.“ sagði Ragnheiður Elín að lokum.

Pallborðsumræður fóru fram á fundinum.Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Við erum í tossabekk í stöðugleika

„Bein erlend fjárfesting snýst ekki einungis um flæði fjármagns yfir landamæri. Flæði þekkingar og opnun viðskiptasambanda þvert á landamæri skiptir ekki minna máli,“ sagði Gylfi Magnússon, dósent í erindi sínu. Hann sagði jafnframt að það leiki enginn vafi á því að bein erlend fjárfesting getur auðveldað mjög og flýtt fyrir flæði tækniþekkingar, verkkunnáttu og fleiri slíkra þátta yfir landamæri. „Það er oftast miklu auðveldara að byggja upp innlenda þekkingu í tilteknum geira með slíkum hætti en fyrir innlent fyrirtæki að gera það frá grunni,“ sagði Gylfi. Hann talaði um að vitaskuld gæti þekkingin flætt líka í hina áttina en með kaupum á vel reknu erlendu fyrirtæki sem býr yfir góðum lausnum er hægt að færa þekkinguna til heimalands fjárfestisins. Gylfi benti á að bein erlend fjárfesting gæti oft opnað fyrir ný viðskiptatengsl sem myndi þjóna íslenska markaðanum. Hann sagði að það væri til mikils að vinna að beina erlendum fjárfestingum í trygginga- og bankageirann hérlendis til að stuðla að samkeppnishæfari lánskjörum. Gylfi sagði að best væri ef stjórnvöld styðji við nýsköpun á almennan hátt, stuðli að efnahagslegum stöðugleika og á þann hátt efli samkeppnishæfni landsins. „Við erum í tossabekk núna í þjóðhagslegum stöðugleika, þetta er ein helsta áskorunin á 21. öldinni,“ sagði Gylfi.

Í kjölfar framsögu fóru fram pallborðsumræður þar sem rætt var frekar um ívilnanir til nýfjárfestinga. Þátttakendur í pallborði auk framsögumanna voru þau Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Helga Valfells, forstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Björgvin talaði um að Ísland væri í þeirri stöðu núna að geta valið vel þau fjárfestingarverkefni sem eru í boði. Hann sagði að ívilnanir væru góðar í þeim tilgangi að byggja upp vissa geira til að auka þekkingu og ná vissum markmiðum. Björgvin sagði að það væri nauðsynlegt að samræma stjórnsýslu þannig að það hafi ekki neikvæð áhrif á fjárfesta. Helga Valfells sagði að alltaf væri hægt að fá erlenda fagfjárfesta fyrir góða tækni. Hún sagði jafnframt að það væri mikill áhugi á íslenskri nýsköpun þrátt fyrir fjármagnshöft. Helga lagði jafnframt áherslu á að fjárfesting með ívilnunum nýtist til uppbyggingar á þekkingu almennt í atvinnulífinu. 

Ívilnanir vegna nýfjárfestinga

Árið 2014 tók í gildi rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hérlendis sem byggir á lögum lög¬um nr. 99/2010 sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Lögin kveða á um að heimilt sé að veita fyrirtækjum afmarkaðar ívilnanir ef það þykir sannað að starfsemi fyrirtækisins hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir efnahag og samfélag. Markmið laganna er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun líkt og segir í frétt á vef ráðuneytsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×