Skoðun

ÍR-ingar blása til stórhátíðar

Inga Dís Karlsdóttir skrifar
Á sumardaginn fyrsta fer 100. Víðvangshlaup ÍR fram í miðbæ Reykjavíkur og gefst þá einstakt tækifæri til þess að spretta úr spori á nýrri og spennandi hlaupaleið sem hæfir ungum sem öldnum, skemmtiskokkurum sem og keppnishlaupurum. Í tilefni þessa stórviðburðar ætla ÍR-ingar að blása til stórhátíðar en engin önnur íþróttakeppni hefur farið fram samfellt í svo langan tíma hér á landi.  

 

Skipuleggjendur búast við að rúmlega 1000 manns muni spretta úr spori niður Laugarveginn við rífandi stemmingu tónlistar og hvatningar. Frá upphafi hafa 9281 keppandi komið í mark í Víðavangshlaupi ÍR og því ljóst að 10.000 keppanda múrinn verður brotinn á sumardaginn fyrsta, en sá keppandi sem það gerir verður að sjálfsögðu verðlaunaður. Ætlunin er að endurvekja stemminguna sem var í árdaga þegar bæjarbúar flykktust í miðbæinn til þess að berja augum hetjurnar sem hlupu. Allir forskráðir krakkar undir 15 ára fá frítt í hlaupið í boði Lindex og því tilvalið að virkja alla fjölskyldumeðlimi til leiks.

 

Hlaupaleiðin er 5 km löng og liggur um hjarta borgarinnar. Dagskráin hefst með upphitun þátttakenda við Hörpuna við hressandi tónlist kl. 11:15. Hlaupið er ræst kl. 12:00 í Tryggvagötunni og m.a. hlaupið upp Hverfisgötuna, niður Laugaveginn og umhverfis Tjörnina áleiðis í mark við Arnarhól. Allir hlauparar fá Powerade drykk þegar í mark er komið en hlaupið er hluti af Powerade sumarmótaröðinni. Auk þess fá allir verðlaunapening.

 

Við Arnarhól verður þátttakendum boðið til grillveislu þar sem meðal annars verður boðið upp á kók í gleri frá Vífilfelli en kók í gleri fagnar 100 ára afmæli í ár. Fjöldi útdráttarverðlauna og mikil stemning og stuð í bænum sem Landsbankinn hefur veg og vanda að. Upplagt er að enda daginn á sundferð, en ÍTR býður öllum þátttakendum í sund að loknu hlaupi.

 

ÍR-ingar hvetja fjölskyldur til að taka sig saman og fjölmenna í þennan einstaka viðburð sem ekki hefur fallið niður í 100 ár. Víðavangshlaup ÍR er í senn viðburður sem hæfir öllum sem vilja gera sér dagamun og taka þátt í afmælishátíðinni. Fyrir keppnishlaupara er hlaupið jafnframt Íslandsmeistaramót í 5 km götuhlaupi. Allar nánari upplýsingar um skráningu og dagskrá er að finna á heimasíðu hlaupsins og á Facebook síðu hlaupsins.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×