Innlent

Ikea-geitin snýr ekki aftur: „Ekki vit í því að rembast við þetta ef hún er bara brennd aftur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Leifar geitarinnar.
Leifar geitarinnar. Vísir/GVA
Ikea-geitin mun ekki snúa aftur fyrir jól eftir að hún var brennd á dögunum. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea, segir að taki sig hreinlega ekki að reisa hana á ný til þess eins að hún verði brennuvörgum að bráð.

„Það er ekki vit í því að rembast við þetta ef hún er bara brennt aftur,“ segir Þórarinn í samtali við Vísi. „Að vel athugað máli held ég að það sé best að sleppa því að þessu ári.“

Geitin mun því ekki lýsa upp skammdegið fyrir jólin enda mikil vinna, og kostnaður, fólgin í því að koma geitinni upp, um 1,8 milljónir þegar allt er talið að sögn Þórarins. 

Sjá einnig: Sjáðu Ikea-geitina loga

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.
„Það tók tvo menn tíu daga að gera þetta. Geitin er ekki á stálgrind eins og margir halda. Hún er smíðuð úr tré, vafin með striga og bundin með hálmi. Svo bætast við seríurnar.“

Mennirnir tveir starfa þar að auki við snjómokstur fyrir Ikea og miðað við spár má gera ráð fyrir því að þeir verði uppteknir næstu daga. Jólageitin hefur verið sett upp árlega seinustu átta ár en oftar en ekki hefur líftími hennar verið styttri en ætlast var til líkt og Vísir hefur farið yfir.

Þórarinn segir óvíst hvort að geitin verði sett upp aftur að ári, fara þurfi vel yfir hvað sé hægt að gera til þess að koma í veg fyrir að hún verði brennd.

„Ef hún fer aftur upp að ári þurfum við að endurhugsa þetta. Það er greinilega ekki nóg að hafa rafmagnsgirðingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×