Innlent

Íbúar Húnaþings í meiri hættu

Sveinn Arnarsson skrifar
Hvammstangi
Hvammstangi
Með núverandi fyrirkomulagi lögreglunnar á Norðurlandi vestra er lögreglan að varpa ábyrgð yfir á aðra viðbragðsaðila og stefnir öryggi íbúa á svæðinu í hættu. Þetta er mat Geirs Karlssonar, yfirlæknis heilbrigðisstofnunar Norðurlands vestra á Hvammstanga.

Geir ritaði lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra og innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann fer yfir áhyggjur sínar af staðsetningu lögreglumanna á svæðinu. Í ágúst þurfti að bíða eftir lögreglu í tvær klukkustundir þegar maður lést er bifreið fór í höfnina á Hvammstanga þar sem lögreglan var við æfingar á Sauðárkróki.

„Mér finnst það algerlega óásættanleg staða hvort sem er fyrir íbúa svæðisins eða viðbragðsaðila hér að þurfa að bíða svo lengi eftir aðstoð lögreglu þegar mikið liggur við,“ segir Geir.

Páll Björnsson, lögreglustjóri Norðurlandsumdæmis vestra, segir það rétt að öryggi íbúa á Hvammstanga sé ekki það sama og annarra.

Guðný Hrund Karlsdóttir
„Já, ef við horfum á þetta sem einhvers konar gæði, og kannski er rétt að hugsa það svo, þá er þeim misskipt i þessu eins og öðru, til dæmis fjarlægð frá spítala, lækni og svo framvegis,“ segir Páll. „Staðsetning okkar manna er reglulega í skoðun en engin afgerandi ákvörðun hefur verið tekin um breytingu á henni. Það eru margir þéttbýlisstaðir, bæði hér í þessu umdæmi og annars staðar, sem búa við svipaðar aðstæður.“

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir marga íbúa finna fyrir öryggisleysi og er sammála Geir yfirlækni um að öryggi þeirra sé stefnt í hættu. "Ég er sammála yfirlækni og get staðfest að þetta er upplifun margra íbúa. Þá veldur fjarvera lögreglu auknu álagi og þjónustuþyngd á fjölskyldudeild Húnaþings vestra. Íbúar upplifa varnarleysi, bið eftir lögreglu er það löng að eftir að hringt er þá getur margt gerst meðan beðið er, sem kallar síðar á áfallahjálp og sálræna úrvinnslu." segir Guðný Hrund.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×