Innlent

Í gæsluvarðhald eftir að dvöl á meðferðarheimili lýkur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Nokkur fjöldi barna dvelur á Stuðlum á hverju ári.
Nokkur fjöldi barna dvelur á Stuðlum á hverju ári.
Hátt í helmingur pilta sem dvaldist á meðferðarheimilum frá árinu 2000 til 2007 hefur setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi eftir að meðferðinni lauk. Félagsráðgjafi segir mikilvægt að fylgja börnum sem dvelja á meðferðarheimilum lengur eftir.

Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd kynnti í dag niðurstöður rannsóknar á afdrifum barna sem dvöldu á níu meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000 til 2007 og meðferðarstöð ríkisins á Stuðlum.

Almennt töldu börnin og aðstandendur þeirra reynslu sína af meðferðarheimilunum vera jákvæða. Þannig sögðu um sextíu prósent meðferðina hafa hjálpað sér.

Um fimmtungur barnanna sagðist þó hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra sem voru í meðferð á sama tíma og þau. Þá söguðust ríflega 14% þeirra hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna heimilanna. Þá sýnir rannsóknin að skólaganga barnanna er oft brotin.

„Þau hafa flest verið í einhvers konar námi eftir að meðferðinni lauk þá er menntunarstaða þeirra hún er lakari heldur en almennt gerist með ungmenni á þessum aldri," segir Elísabet Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd.

Rannsóknin sýnir einnig að 41% pilta hafi setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi að lokinni meðferð. Þá sótti helmingur ungmennanna vímuefnameðferð eða aðstoð vegna tilfinningalegra erfiðleika eftir að dvöl lauk.

Þá kemur fram að eftirmeðferð hafi verið ábótavant. Aðeins tæpum fjórðungi ungmennanna var fylgt skipulega eftir eftir að meðferðinni lauk. Meirihluti þeirra sem fékk slíka meðferð taldi hana hafa gagnast sér. Elísabet segir mikilvægt að fylgja börnunum betur eftir þegar meðferð lýkur.

Við sjáum það meðan að staðan þeirra er lakari á vinnumarkaði og námslega þá er greinilegt að við þurfum að hugsa um það hvernig sé hægt að styðja við þessa þætti til þess að þau eigi sömu möguleika og aðrir," segir Elísabet.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×