Innlent

Í farbann vegna kókaínsmygls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var stöðvaður í Leifsstöð.
Maðurinn var stöðvaður í Leifsstöð. Vísir/Anton
Hæstiréttur staðfesti í dag  úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að maður, erlendur ríkisborgari, skyldi sæta farbanni til 21. september næstkomandi. Maðurinn er grunaður um að hafa átt þátt í tilraun til smygls á 870 grömmum af kókaíni hingað til lands fyrr í sumar.

Maðurinn var, ásamt ferðafélaga sínum, stöðvaður í tollhliði í Leifsstöð 16. ágúst. Við leit í farangri ferðafélaga mannsins fundust hylki með fíkniefnum í og gekkst hann undir röntgenrannsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sama dag og þeir komu til landsins. Niðurstaða þeirrar rannsóknar leiddi í ljós að ferðafélaginn hafði haft innvortis yfir 30 pakkningar af ætluðum fíkniefnum.

Við yfirheyrslu sagði maðurinn að hann hefði komið hingað til lands til að horfa á fótbolta með frænda sínum sem átti að koma til landsins síðar. Hafi þeir ætlað að gista á hóteli sem maðurinn hafði bókað. Að öðru leyti neitaði hann að tjá sig um málið.

Við nánari athugun fann lögregla þó ekki neinn sem hafði komið til landsins á því nafni sem maðurinn gaf upp að væri frændi sinn. Kærði hafi heldur ekki vitað á hvaða fótboltaleik hann væri að koma á.

Ferðafélaginn hafði jafnframt lýst því í skýrslutöku að hann væri einungis burðardýr og að hann hafi verið neyddur til fararinnar þar sem maður að nafni hafi hótað fjölskyldu hans. Sagði ferðafélaginn að honum hafi verið sagt að maður myndi fylgja honum alla leið í fluginu og gefa sig fram við hann er þeir væru lentir og komnir í gegnum tollskoðun.

Rannsókn lögreglu beinist nú að því að ná utan um þá starfsemi sem lögregla telur að maðurinn standi að. Umfangsmikilli og skipulagðri brotastarfsemi er snúi að innflutningi fíkniefna hingað til lands.

Telur lögregla að maðurinn myndi reyna að komast úr landi eða leynast til þess að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Var því óskað eftir farbanni og fallist var á kröfu lögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×