Enski boltinn

Mark Gylfa dugði ekki til gegn Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Mason kemur Tottenham í 2-1.
Ryan Mason kemur Tottenham í 2-1. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson mætti aftur á White Hart Lane þegar Swansea City sótti Tottenham heim í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Nacer Chadli kom Spurs yfir á 7. mínútu en tólf mínútum síðar jafnaði Ki Sung-yueng metin með sínu sjötta deildarmarki í vetur. Í millitíðinni átti Gylfi glæsilegt skot, beint úr aukaspyrnu, sem small í stönginni.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Ryan Mason kom Tottenham aftur yfir á 51. mínútu. Níu mínútum síðar bætti Andros Townsend svo þriðja markinu við og sigur Tottenham virtist vera í höfn.

En mínútu fyrir leikslok hleypti Gylfi spennu í leikinn þegar hann skoraði með skoti úr vítateignum eftir sendingu frá Jefferson Montero.

Nær komust Svanirnir hins vegar ekki og Tottenham fagnaði mikilvægum sigri í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Spurs er í 7. sæti úrvalsdeildarinnar með 47 stig.

Gylfi og félagar eru hins vegar í 9. sæti með 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×