Enski boltinn

Fyrirliðinn skaut Swansea upp úr fallsæti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea eru komnir aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni, en velska liðið vann 1-0 sigur á nýliðum Watford í kvöld.

Eina mark leiksins skoraði fyrirliðinn Ashley Williams með flottum skalla á 27. mínútu eftir undirbúning Suður-Kóreumannsins Ki Sung-Yong.

Bafétimbi Gomis var hársbreidd frá því að koma Swansea í 2-0 undir lok leiksins en skaut í stöngina og Troy Deeney var svo ekki langt frá því að jafna í uppbótartíma fyrir Watford.

Swansea var fyrir leikinn í kvöld búið að tapa tveimur deildarleikjum í röð og ekki unnið síðan á öðrum degi jóla.

Með sigrinum komst Swansea upp úr fallsæti, en það er nú með 22 stig, einu stigi meira en Newcastle sem er fallsæti eftir úrslitin í kvöld.

Eftir að skora í tveimur deildarleikjum í röð tók Gylfi Þór sér smá pásu frá markaskorun, en hann var mjög duglegur í kvöld og skilaði boltanum vel frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×