Fótbolti

Messi skaut Börsungum í toppsætið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Suárez reynir að koma boltanum framhjá Oblak með dræmum árangri.
Suárez reynir að koma boltanum framhjá Oblak með dræmum árangri. vísir/getty
Sigurmark Lionel Messi gegn Atletico Madrid undir lok venjulegs leiktíma skaut Barcelona í toppsæti spænsku deildarinnar í bili en leiknum lauk með 2-1 sigri Börsunga á Vicente Calderon, heimavelli Atletico Madrid.

Nágrannar Atletico í Real Madrid eiga þó tvo leiki til góða á Barcelona og geta náð toppsætinu á ný þegar þeir mæta Villareal í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik í höfuðborginni en Rafinha kom gestunum yfir eftir samleik með með Luis Suarez þegar hann lagði boltann í fjærhornið á 64. mínútu en heimamenn voru ekki lengi að svara.

Var þar að verki miðvörðurinn sterki Diego Godin eftir aukaspyrnu Koke en lítil snerting Godin sendi boltann í hornið og átti Marc ter Stegen í marki Barcelona enga möguleika.

Á 86. mínútu tókst Messi hinsvegar að bæta við öðru marki Barcelona en það reyndist sigurmarkið. Náði miðvörður Atletico að komast fyrir fyrsta skot hans en Messi var fyrstur allra að ná boltanum og leggja hann framhjá Jan Oblak í markinu.

Sigurinn þýðir að Börsungar eru með tveggja stiga forskot á Real Madrid og Sevilla eftir 24 umferðir en Madrídingar geta náð toppsætinu á ný takist þeim að vinna annan af tveimur leikjunum sem liðið á inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×