Arsenal einum fleiri í 80 mínútur en náði einungis jafntefli │ Marseille í kjörstöðu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arsenal-menn niðurlútir eftir jöfnunarmark Atletico.
Arsenal-menn niðurlútir eftir jöfnunarmark Atletico. vísir/afp
Atletico Madrid náði inn mikilvægu útivallarmarki er liðið gerði 1-1 jafntefli við Arsenal á Emirates í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

Það byrjaði ekki byrlega fyrir Atletico Madrid því strax á tíundu mínútu hafði Sime Vrsaljko fengið tvö gul spjöld. Þar af leiðandi var hann sendur í sturtu og allt sauð upp úr.

Diego Simeone, stjóri Atletico, var algjörlega brjálaður og gekk berserksgang á hliðarlínunni. Dómarateymi leiksins fékk nóg og sendi Simeone upp í stúku. Staðan var þó markalaus í hálfleik.

Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir klukkustund þegar Alexandre Lacazette skallaði fyrirgjöf Jack Wilshere laglega í netið og flestir héldu að Arsenal myndi láta kné fylgja kviði. Svo var ekki.

Á 82. mínútu jafnaði Antoine Griezmann metin eftir ömurleg mistök í vörn Arsenal er Laurent Koscielny gerði sig sekan um slæm mistök. Allt jafnt og lokatölur 1-1.

Marseille er í góðri stöðu í hinni viðureigninni en liðið lagði Salzburg 2-0 á heimavelli. Florian Thauvin skoraði í fyrri hálfleik og Clinton Njie bætti við marki í síðari hálfleik.

Síðari leikir liðanna fara fram næstkomandi fimmtudag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira