Sport

Hvernig er að vera hinsegin íþróttamanneskja á Íslandi í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Helga Guðmundsdóttir er landsliðskona í karate.
María Helga Guðmundsdóttir er landsliðskona í karate. Mynd/Karatesamband Íslands
Landsliðskona í karate sem jafnframt er íþróttaþjálfari og jafningjafræðari á vegum Samtakanna '78 ætlar að segja frá stöðu hinsegin fólks í íþróttum á hádegisfundi ÍSÍ á miðvikudag.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands býður upp á mjög athyglisverðan hádegisfund í sal E í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal á miðvikudaginn en fundurinn mun standa yfir frá klukkan 12.00 til 13.00. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands segir frá fundinum á heimasíðu sinni.

Viðfangsefni fundarins er mál sem hefur komið meira og meira inn í umræðuna að undanförnu eftir að hafa verið alltof lengi á bak við tjöldin. Spurningin sem á að svara á fundunum á miðvikudaginn er eftirfarandi: Hvernig er að vera hinsegin íþróttamanneskja á Íslandi í dag?

María Helga Guðmundsdóttir, landsliðskona í karate, íþróttaþjálfari og jafningjafræðari á vegum Samtakanna '78, fjallar um stöðu hinsegin fólks í íþróttum og leiðir til að stuðla að því að allt íþróttafólk geti hámarkað árangur og ánægju í íþróttaheiminum.

María Helga vann í vetur gull og brons á opna sænska meistaramótinu í Malmö í mars og hún vann einnig silfur í í kumite kvenna á Norðurlandamótinu í Álaborg í Danmörku í apríl.

Í fyrirlestrinum hennar Maríu Helgu verður ýmsum umræðuefnum velt upp og þar á meðal þessum þremur:

Hvað er kynjakerfið og hvernig hefur það áhrif á íþróttamenningu? Hvað þýða hugtök eins og intersex og kynsegin?

Hvernig birtast fordómar á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna í íþróttum?

Hvaða reglur gilda um þátttöku trans og intersex fólks í kynjaskiptum keppnisíþróttum? Og hvað er hægt að gera sem þjálfari eða liðsfélagi til að styðja hinsegin fólk í íþróttum og stuðla að opnu og fordómalausu umhverfi?

Fundurinn verður líka tekinn upp og gerður aðgengilegur á heimasíðu ÍSÍ nokkrum dögum seinna.

Það er hægt að skrá sig á fundinn hér og lesa meira um fundinn inn á fésbókarsíðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×