Skoðun

Hvað varð um heilbrigðiskerfið?

Guðrún Bryndís Karlsdóttir skrifar
Draumurinn um nýjan Landspítala er búinn að umturna heilbrigðiskerfinu, það gleymdist bara að láta vita af því. Fyrir tuttugu árum eða þar um bil hófst þessi draumsýn einhverra sem enginn veit lengur hver er.

Sjúkrahúsin í Reykjavík

Einu sinni voru þrjú sjúkrahús starfrækt í Reykjavík, hvert og eitt með sitt sérkenni, sérhæfingu og samkeppni um gæði þjónustu, mannskap og fjármagn. Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar miðaðist við landið allt, það var ákveðið að sérhæfðasta þjónustan væri í Reykjavík, bæði vegna samgangna og vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu búa flestir landsmenn. Tækjabúnaður og aðstaða á stóru sjúkrahúsunum miðaðist því við það hversu mikla þjónustu þarf að veita á landsvísu.

Landsbyggðarsjúkrahúsin

Úti á landi voru misstór sjúkrahús með heilsugæslu, þjónustan miðaðist við hvaða þjónustu var skynsamlegt að veita. Stærð sjúkrahúsa og starfsemi tók mið af hversu afskekktur byggðarkjarninn var, hvað varðar landfræðilega legu og öryggi samgangna. Sjúkrahúsin voru flest vel útbúin tækjum sem fyrirtæki og hollvinasamtök gáfu, til að tryggja heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Öryggið fólst í því að sjúklingar fengu eins mikla þjónustu á sínu sjúkrahúsi og skynsamlegt var að veita, en sendir „suður“ ef ástæða þótti til.

Til að spara fólki ferðir komu farandsérfræðingar og sinntu sjúklingum, sama átti við um aðgerðir: Þegar þörf var á, var skurðstofan mönnuð af teymi farandsérfræðinga. Þetta fyrirkomulag var byggt upp til að heilbrigðisþjónustan myndaði öryggisnet fyrir landsmenn.

Sameiningar sjúkrahúsa

Þegar Reykvíkingar höfðu lokið við byggingu Borgarspítalans, hófust sameiningar sjúkrahúsa. Fyrsta tilraunin var gerð á sameiningu Landakots og Borgarspítala, aðferðin var einföld: Það kom út skýrsla, fjárveitingar til Landakots voru skertar og Landakot sameinað Borgarspítala. Skömmu síðar var Borgarspítali sameinaður Landspítala. Sameiningarnar áttu að skila rekstrarhagræði, samþjöppun þekkingar, betri nýtingu aðstöðu og ýmislegu öðru tilfallandi.

Þegar Ríkisendurskoðun gerði úttektir á sameiningum, kom í ljós að hagræðið fólst í því að það var hægt að fækka eldhúsum og að alls konar stjórnunarkostnaður bættist við, ásamt því að sameinuð sjúkrahús þurftu meiri pening en ekki minni – án þess að hægt væri að sjá að þjónustan hefði aukist. Landspítalinn svaraði þessari úttekt með skýrslu og niðurstaðan var nokkurn veginn á þá leið að það þyrfti að byggja nýjan spítala.

Nýr Landspítali fyrir alla

Næstu árin var mikill uppgangur í nefndum, erlendum ráðgjöfum og skýrslum um nýjan spítala. Í upphafi var gert ráð fyrir því að halda áfram að veita heilbrigðisþjónustu úti á landi. Upp úr aldamótum skoðuðu nefndir þann möguleika að byggja eitt sjúkrahús, fá um leið háskólasjúkrahús og aðlaga heilbrigðiskerfið að starfsemi þess. Einhvers staðar í einhverjum nefndum, af einhverju fólki var ákveðið að byggja eitt stórt sjúkrahús við Hringbraut fyrir alla landsmenn, þannig fengju allir sömu þjónustu á sama stað.

Undanfarin ár hefur heilbrigðiskerfinu verið breytt til að uppfylla þær breytingar sem gerðar voru á heilbrigðislöggjöfinni árið 2007. Í skjóli kreppufjárlaga var breytingum laumað inn svo lítið bæri á, afleiðingarnar sem þessar breytingar hafa eru ekki teknar til greina og umræðan er falin á bakvið háværa umræðu um „ástandið á LSH“ – ástand sem hefur þá einu lausn að byggja Þjóðarsjúkrahús utan um heilbrigðiskerfi allra landsmanna.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×