Innlent

Hvað gerum við ef við vinnum Eurovision?

Boði Logason skrifar
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir að engin viðbragðsáætlun sé fyrir hendi ef við vinnum Eurovision.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir að engin viðbragðsáætlun sé fyrir hendi ef við vinnum Eurovision. mynd/365
„Það er ekki til nein viðbragðsáætlun í þessu máli," segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og æðsti yfirmaður Eurovision hér á landi. Íslendingar taka þátt í aðalkeppninni á morgun og er íslenska laginu spáð góðu gangi.

Í viðtali við þáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag sagði Katrín að hún hafi fylgst með keppninni frá því að Íslendingar tóku fyrst þátt. Spurð að því hvað gerist ef Íslendingar vinna keppninni segir Katrín að það yrði stórt viðfangsefni.

„Eins og einhver sagði: Sú hætta er alltaf fyrir hendi. Ég man að ég las einhverja ágæta úttekt á þessu eitthvað árið; Hvað gerum við ef við vinnum Eurovision? Þetta var þegar Harpa var í byggingu og þá var niðurstaðan sú að Harpa væri alltof lítil fyrir þessa keppni og mörgum þótti hún nægilega stór. Ef svo fer þá er það stórt viðfangsefni. Við verðum bara að horfast í augu við það ef það verður," segir Katrín.

Spurð hvort að líklegra sé að við höldum keppnina eða gefum hana frá okkur segir Katrín: „Mér finnst það nú íslenskari leið að taka þetta að sér og kýla á það."

Og Katrín þorir ekki að spá Íslandi sigri. „Ég held að við eigum alveg möguleika á að ná góðum árangri," segir hún. „Þetta var pólitískt Eurovision-svar, ég þori ekki að spá okkur sigri."

Hægt er að hlusta á viðtalið við Katrínu í meðfylgjandi hljóðbroti eða inni á Útvarpi Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×