Innlent

Hundruð búa í hjólhýsum á sumrin

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sífellt fleiri Íslendingar hafast við í hjólhýsum yfir sumarmánuðina. Hjólhýsahverfi hafa skotið upp kollinum á nokkrum stöðum á Íslandi, til að mynda á Laugarvatni, í Þjórsárdal og á Flúðum í Hrunamannahreppi. Þar búa nokkur hunduð manns á sumrin.

Ragnar Magnússon, oddviti í Hrunamannahreppi, segir hjólhýsahverfið góða viðbót við bæjarlífið. 

„Það er allt fullt hérna og mér skylst að það sé langur biðlisti eftir lóðum í hverfinu. Það er lítið ónæði af þessu og auðvitað kemur þetta sér vel fyrir verslun og þjónustu í bænum. Sumum þykir hverfið þó ekki mikil prýði fyrir bæinn, en ég hef fulla trú á að það breytist um leið og gróðurinn vex og hýsin fara að falla betur inn í umhverfið,“ segir Ragnar.

Nokkur hundruð manns hafast við í hjólhýsahverfinu, og fjölgar íbúum á Flúðum því töluvert yfir sumartímann.„Einhverra hluta vegna er þetta mikið fólk af Suðurnesjunum. Ætli þau séu ekki bara að leita í veðurblíðuna, það er alltaf svo gott veður hérna,“ bætir Ragnar við.

Ný hjólhýsi kosta á á bilinu tvær til sjö milljónir og leiga á lóð fyrir hjólhýsi kostar um hundrað þúsund krónur á ári. Flestir íbúarnir í hjólhýsahverfunum hugsa hýsin sem sumarbústaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×