Innlent

Hundar réðust að lömbum og átu þau lifandi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jökull Helgason og Hildur Sigurðardóttir með lömbin sem tveir hundar drápu fyrir þeim á miðvikudag í síðustu viku.
Jökull Helgason og Hildur Sigurðardóttir með lömbin sem tveir hundar drápu fyrir þeim á miðvikudag í síðustu viku. Fréttablaðið/GVA
„Þetta var í svæsnari kantinum,“ segir Guðmundur Bjarnason dýralæknir um aðkomuna að fimm lömbum sem tveir hundar drápu á bænum Ósabakka á Skeiðum í síðustu viku.

Hildur Sigurðardóttir, bóndi á Ósabakka, segir að á miðvikudagsmorguninn hafi hún fengið ábendingu um að ekki væri allt með felldu hjá kindahópi í hólfi skammt frá bænum. Tveir hundar, annar hreinræktaður labrador en hinn labradorblendingur, voru hjá fénu.

„Þetta er það ljótasta sem þeir sem að komu hafa nokkurn tíma séð. Þeir átu undan þeim lærin lifandi. Þeir voru með eitt lamb sem þeir voru að djöflast í þegar ég kom,“ segir Hildur sem tókst að handsama yngri hundinn en sá eldri forðaði sér. Á vígvellinum voru þrjú dauð lömb.

„Það var búið að éta alveg undan þeim lærin svo skein bara bókstaflega í bein. Tvö önnur voru á lífi og þau voru hræðilega útleikin, þeir átu þau lifandi. Annað lambið sem var lifandi voru þeir búnir að éta frá hálsi og niður á bóg svo skein í beinin. Þetta er svo hryllilegt að fólk trúir því ekki nema sjá það,“ segir Hildur. Hundarnir höfðu étið annað lærið undan hinu særða lambinu inn að beini. Lömbin tvö voru aflífuð.

Þess utan var eitt lamb drukknað í skurði. „Féð tryllist náttúrlega af hræðslu en hafði ekki mikil undanfæri. Það voru þrjár kindur sem voru fastar í vírnum og við björguðum,“ segir Hildur sem kveður upplifunina hafa verið óraunverulega. „Maður fer í þannig ástand að maður gerir það sem þarf að gera. Svo kemur áfallið eftir á.“

Þetta lamb var lifandi þegar að var komið þrátt fyrir að hundarnir hafi étið það inn að beini frá hálsi niður í bóg.Fréttablaðið/GVA
Hundarnir voru hvor frá sínu heimilinu á tvíbýli í nágrenninu. Hundurinn sem handsamaður var á staðnum var fljótlega aflífaður og svæfa átti hinn hundinn í gær. „Þetta eru dýrbítar og það er búið að tendra þá og ekki hægt að treysta þeim eftir þetta,“ segir Guðmundur Bjarnason dýralæknir.

Húsbóndinn á Ósabakka, Jökull Helgason, var við smalamennsku inni á afréttum þegar hundana bar að garði en sá ummerkin er hann kom til byggða.

„Maður hefur upplifað ýmislegt en þetta er alger óhugnaður og svo viðbjóðslegt að lömbin væru lifandi hálfétin,“ segir Jökull sem er ríflega fimmtugur og hefur átt kindur frá því að hann man eftir sér. Hann kveður enn óljóst hversu tjónið sé mikið. „Það eru fjögur lömb til viðbótar örkumla og það er verið að reyna að bjarga þeim með pensilíni.“

Lögreglan hefur málið til rannsóknar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×