Innlent

Huld sett forstjóri Tryggingastofnunar tímabundið

Atli ísleifsson skrifar
Eygló Harðardóttir og Huld Magnúsdóttir árið 2013.
Eygló Harðardóttir og Huld Magnúsdóttir árið 2013. Mynd/velferðarráðuneytið
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur falið Huld Magnúsdóttur að gegna stöðu forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október næstkomandi, tímabundið um níu mánaða skeið.

Huld mun gegna stöðunni í fjarveru Sigríðar Lillýar Baldursdóttur sem hefur hlotið námsleyfi til sama tíma.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að Huld hafi gegnt embætti forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga frá árinu 2009.

„Áður starfaði hún hjá Össuri hf. í 15 ár. Hún hefur langa stjórnunarreynslu og starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri framleiðslu- og dreifingarsviðs Össurar í Bandaríkjunum. Huld er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst,  B.A.-próf í alþjóðasamskiptum frá University of Sussex í Englandi og hefur lokið diplómanámi á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Ráðherra hefur sett Þorbjörgu Gunnarsdóttur til að gegna embætti forstjóra þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar í Huldar stað frá 15. október til níu mánuða. Þorbjörg hefur starfað hjá þjónustu- og þekkingarmiðstöð frá árinu 2008 og síðustu ár sem skrifstofustjóri en áður starfaði hún um nokkurra ára skeið hjá Skeljungi á fjármálasviði fyrirtækisins. Þorbjörg er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í fjölmiðlafræði og almannatengslum frá Virginia Commonwealth University.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×