Innlent

Hryssa krækti saman skeifum og lá bjargarlaus í hálfan sólarhring

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hryssan Tíbrá lá bjargarlaus í hálfan sólarhring úti í haga.
Hryssan Tíbrá lá bjargarlaus í hálfan sólarhring úti í haga. Myndir/Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir
Hryssan Tíbrá á bænum Skarði í Landsveit krækti saman skeifu á hægri afturfæti í skeifu á hægri framfæti fyrr í vikunni með þeim afleiðingum að hún gat ekki staðið upp í hálfan sólarhring. Hryssan var auk þess búin að gata afturhófinn.

Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir, bóndi í Skarði, segir að íbúar á bænum hafi verið með Tíbrá í láni frá þeim Stefáni og Höllu í Þjóðólfshaga. „Við vorum þar fyrir viku síðan, þá nýkomin komin úr sex daga hestaferð um Fjallabak. Tíbrá var reiðhestur dóttur okkar í hestaferðinni, en Tíbrá er þæg og gott barnahross.“

Guðlaug Berglind segir að á mánudaginn hafi þau svo verið að sækja hrossin í hagann og komið að Tíbrá þar sem hún gat ekki staðið upp.

„Hún hefur verið svona í um hálfan sólarhring. Við drógum skeifuna undan hægri framfæti og var Tíbrá þá laus úr prísundinni. Hún stóð strax upp og fór heim með hinum hrossunum“, segir Guðlaug Berglind.

Tíbrá lá í hálfan sólarhring með skeifurnar fastar saman áður en hún gat staðið upp en þá var búið að rífa skeifuna undan á hægri framfæti.Mynd/Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir
Tíbrá hafði náð að krækja skeifunum saman á einhvern óskiljanlegan hátt.Mynd/Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×