Innlent

Hreppsnefnd skorar á Strax að lækka verðið

Framkvæmdastjóri Samkaupa segir verð eins í öllum verslunum Samkaupa, líka í Strax á Flúðum þar sem opið sé alla daga vikunnar.Mynd/Samkaup
Framkvæmdastjóri Samkaupa segir verð eins í öllum verslunum Samkaupa, líka í Strax á Flúðum þar sem opið sé alla daga vikunnar.Mynd/Samkaup
„Verðlagið er svakalegt,“ segir Ragnar Magnússon, oddviti í hreppsnefnd Hrunamannahrepps, sem skorað hefur á verslunina Strax að lækka vöruverð og hafa lengur opið á veturna.

Strax, sem Samkaup rekur, er eina matvöruverslunin á Flúðum. Á fundi hreppsnefndar í byrjun október fór Ragnar oddviti yfir þjónustu verslunarinnar við íbúa sveitarfélagsins. Sagt var að mikið hefði borið á kvörtunum vegna afgreiðslutíma og verðlagningar verslunarinnar.

„Það er ríkjandi viðhorf að það sé verið að fleyta rjómann af versluninni með því að hafa bara vel opið yfir sumartímann þegar ferðamennirnir eru á kreiki en um leið og sá straumur hægist þá snarstytta þeir afgreiðslutímann,“ útskýrir Ragnar.

Í ályktun hreppsnefndarinnar er því beint „til forsvarsmanna verslunarinnar Strax á Flúðum að lengja afgreiðslutíma verslunarinnar yfir vetrartímann og lækka vöruverð.“ Hreppsnefndin hefur þó enga formlega stöðu gagnvart versluninni að þessu leyti.

„Þetta eru aðeins vinsamleg tilmæli til þeirra sem stjórna Strax að huga að þessum málum. Við höfum ekki fengið nein formleg viðbrögð af hálfu verslunarinnar en ákaflega jákvæðar undirtektir íbúanna í sveitinni við því að við skyldum hafa tekið þetta upp,“ segir Ragnar.

Á sumrin hefur Strax opið til tíu á kvöldin en á veturna lokar klukkan sex síðdegis. Það segir Ragnar afleitt. „Fólk þarf að taka sér frí úr vinnu til þess að komast í verslun,“ lýsir oddvitinn stöðunni. Flestir fari reyndar í matvörubúðir á Selfossi því verðið sé svo hátt á Flúðum. „Verð á mörgum hlutum er alveg tvöfalt miðað við lágvöruverðsverslanir.“

Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, segir opnunartíma verslanakeðjunnar einfaldlega mismunandi eftir árstíma og staðsetningu á landinu. „Búðin á Flúðum er til dæmis opin alla daga vikunnar. Sumar búðir eru opnar fimm daga í viku og enn aðrar sex daga í viku,“ segir Ómar og leggur áherslu á að Samkaup reki verslanir víða í dreifbýli á svæðum sem aðrar verslunarkeðjur hafa ekki sýnt áhuga.

Hvað verðlag snertir segir Ómar það hljóta að vera krafa íbúa á alla sem veita þeim þjónustu, hvort sem það eru verslunareigendur eða yfirvöld sveitarfélags, að kostnaði sé haldið í lágmarki. „Samkaup hafa yfirtekið rekstur verslana á landsbyggðinni og hafa í öllum tilvikum lækkað vöruverð frá því sem áður var,“ segir framkvæmdastjóri Samkaupa.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×