Sport

Hrafnhildur og Eygló Ósk náðu lágmörkum fyrir ÓL 2016

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hrafnhildur náði í dag ÓL-lágmarki í 100 metra bringusundi.
Hrafnhildur náði í dag ÓL-lágmarki í 100 metra bringusundi. vísir/ernir
Eins og fram kom á Vísi í morgun settu sundkonurnar Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir Íslandsmet á HM í sundi í Kazan í Rússlandi.

Hrafnhildur stórbætti metið í 100 metra bringusundi en hún kom í bakkann á 1:06,87 mínútum. Hún átti sjálf gamla metið sem var 1:08,07 mínútur en hún setti það á Smáþjóðaleikunum á Íslandi í júní.

Hrafnhildur setti ekki einungis Íslandsmet heldur náði hún einnig A-lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári. Hrafnhildur er þar með búin að tryggja sér keppnisrétt í þremur greinum á ÓL 2016 en áður hafði hún náð lágmarki fyrir 200 metra fjórsund og 200 metra bringusund.

Eygló Ósk Gústafsdóttir setti nýtt Íslandsmet í 100 metra baksundi en hún synti á 1:00,25 mínútum. Hún átt sjálf gamla metið sem var 1:00,89

Um leið náði Eygló A-lágmarki fyrir ÓL 2016 en áður var hún búin að tryggja sér keppnisrétt í 200 metra baksundi.

Í gær náði svo Anton Sveinn McKee A-lágmarki í 100 metra bringusundi er hann synti á 1:00,53 mínútum. Anton sló í leiðinni sex ára gamalt Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar.

Það eru því fjórir Íslendingar sem hafa tryggt sig inn á ÓL í Ríó á næsta ári en auk sundfólksins verður spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir meðal keppenda í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×