Innlent

Hótel Laxá ber af sér sakir í kjölfar umfjöllunar Kastljóss

Anton Egilsson skrifar
Um vernd Mývatns og Laxár gilda sérlög og sérstök verndaráætlun.
Um vernd Mývatns og Laxár gilda sérlög og sérstök verndaráætlun. Vísir/vilhelm
„Frárennslismál frá hreinsistöð við Hótel Laxá eru í lagi. Hótelið hefur ekki farið fram á neinar undanþágur vegna slíkra mála.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu sem Hótel Laxá sendi frá sér í kjölfar umfjöllunar um frárennslismál við Mývatn í þætti Kastljóss í kvöld.

Í þættinum var fjallað um slakt eftirlit og ítrekaðar undanþágur sem veittar hafa verið til hótelrekenda í Mývatnssveit frá þeim reglum sem gilda um fráveituhreinsun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði í þættinum að frárennslismál á svæðinu væru í lamasessi og að hóteleigendur bæru þar mjög mikla ábyrgð. Sagðist hann telja tímabært að kalla stofnanir og ráðuneyti til ábyrgðar vegna aðgerðarleysis þeirra.

Í tilkynningu Hótel Laxá segir að hótelið sé búið hreinsistöð með þriggja þrepa hreinsun sem er með því best sem þekkist á landinu. Bilun hafi komið upp í búnaðinum síðasta sumar ráðið hafi verið bót á. Eftirlitsaðilar hafi verið meðvitaðir um bilun stöðvarinnar og upplýstir um framgang lagfæringar.

Þar segir jafnframt að Hótel Laxá hafi það að markmiði að reka umhverfisvænt hótel.

„Hótel Laxá hefur það að markmið að reka umhverfisvænt hótel í þessari miklu náttúruperlu sem Mývatnssveit er og berum við mikla virðingu fyrir náttúru hennar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×