Innlent

Hópuppsögn í Söngskóla Sigurðar Demetz: „Viljum forðast milljóna gjaldþrot í lok skólaárs“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz setti upp óperuna Martha eftir Friedrich von Flotow í vor.
Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz setti upp óperuna Martha eftir Friedrich von Flotow í vor. Vísir/Valli
Öllum 28 kennurum í Söngskóla Sigurðar Demetz við Ármúla í Reykjavík hefur verið sagt upp störfum. Gunnar Guðbjörnsson, annar skólastjóra, segist í samtali við RÚV óttast að söngnám á Íslandi heyri sögunni til breytist ekki rekstrarumhverfi söngskóla hér á landi.

Fréttablaðið hefur fjallað um fjárhagsvanda tónlistarskóla í Reykjavík undanfarna mánuði.Sumarið 2011 var gert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um nokkuð hundruð milljón króna fjárframlag ríkissjóðs til tónlistarmenntunar á framhaldsstigi. 

„Fjárhæðin átti að ganga upp í kennslukostnað allra framhaldsstigsnemenda á landinu. Fjöldi nemenda hefur þó aukist og ekki var tekið tillit til launahækkana í kjarasamningum. Töluvert vantar því upp á að fjárhæðin dugi,“ sagði Þórunn Guðmundsdóttir, stjórnarmaður Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík, í ágúst. Bætti hún við að uppsafnaður vandi væri orðinn mikill.

Gunnar Guðbjörnsson segir skólann vera að forðast gjaldþrot.Visir/Valli
Sendu nemendum bréf

Gunnar og Guðbjörg Sigurjónsdóttir, skólastjórar skólans, sendu nemendum við skólann bréf í morgun þar sem upplýst var að búið væri að segja upp öllum kennurunum 28 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. 

Segir að ekki hafi verið ætlunin að íþyngja fleirum en kennurunum með svo alvarlegum hlut en þar sem fjölmiðlar væru komnir á snoðir um málið væri réttast að vera ekki að þagga niður svo alvarlegan hlut.



„Enda teljum við að bæði Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneytið hafi brugðist okkur í þessu erfiða máli.“

Sjá einnig: Einn tónlistarskóli fái peningana

Þau biðja nemendur um að halda ró sinni, halda áfram að mæta og stunda skólann enda sé ekki um neina endanleag ákvörðun að ræða varðandi lokun skólans.

„Við erum hins vegar tilneydd til að horfast í augu við þá staðreynd að aðeins með því að skólinn fái aukið fjármagn til greiðslu kennslukostnaðar getum við haldið starfinu áfram á nýju ári.“

Skólastjórarnir gera frekar ráð fyrir því að fundin verði leið til að bjarga skólanum og öðrum skólum sem svipað er satt fyrir.

„Það sem við viljum forðast er milljóna gjaldþrot í lok skólaárs.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×