Fótbolti

Hope Solo sett í sex mánaða bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hope Solo hefur verið einn besti markvörður heims undanfarin ár.
Hope Solo hefur verið einn besti markvörður heims undanfarin ár. vísir/getty
Bandaríska knattspyrnusambandið hefur sett markvörðinn Hope Solo í sex mánaða bann vegna ummæla hennar eftir leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar í 8-liða úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó.

Bandaríska liðið tapaði umræddum leik í vítaspyrnukeppni og eftir hann gagnrýndi Solo leikstíl sænska liðsins og sagði að það væri samansafn af skræfum.

Ummæli Solo féllu í grýttan jarðveg en meðal þeirra sem gagnrýndu þau voru Megan Rapinoe, samherji hennar í bandaríska liðinu, og Sunil Gulati, forseti bandaríska knattspyrnusambandsins.

„Ummæli Hope Solo eftir leikinn gegn Svíþjóð á Ólympíuleikunum 2016 voru óásættanleg og ekki takt við það sem við krefjumst af okkar landsliðsfólki,“ sagði Gulati í fréttatilkynningu. Í henni segir einnig að bannið sem Solo fékk tengist einnig gömlum syndum markvarðarins.

Sjá einnig: Baulað á Solo í Brasilíu

Solo, sem er 35 ára, hefur verið einn besti markvörður heims undanfarin ár og hjálpað bandaríska landsliðinu að vinna heimsmeistaratitil og til tveggja gullverðlauna á Ólympíuleikum.

Auk þess að sýna frábæra frammistöðu inni á vellinum hefur Solo verið dugleg að koma sér í fréttirnir fyrir atvik utan hans.

Í júní 2014 var hún handtekin vegna ásakana um að hafa beitt hálfsystur sína og frænda ofbeldi. Í fyrra var Solo svo sett í 30 bann af bandaríska knattspyrnusambandinu eftir að hún og eiginmaður hennar, Jerramy Stevens, voru stoppuð í bíl bandaríska landsliðsins á leið til Los Angeles. Eiginmaðurinn var drukkinn undir stýri og sat inni í þrjá daga.

Solo hefur leikið 202 landsleiki fyrir Bandaríkin en ljóst er að þeir verða ekki fleiri á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×