Skoðun

Hlustað á norðurljósin

Þórður Bjarnason skrifar
Íslenska sprotafyrirtækið Elf Tech hefur þróað vöruna Aurorafy sem gerir notandanum kleift að hlusta á norðurljósin. Vinsældir norðurljósaferða hafa aldrei verið meiri og í nýrri skýrslu Ferðamálastofu eru norðurljósin tilgreind sem minnisstæðasta upplifun ferðamanna yfir vetrartímann á Íslandi. Aurora­fy auðgar upplifunina af norðurljósunum og skapar þannig enn ógleymanlegri upplifun með því að tvinna saman ljósadýrðina á himninum og heillandi hljóðheim.

Móttökubúnaður sem festur er á ökutæki sendir þráðlaust hljóðmerki í heyrnartól og heyrist það í rauntíma. „Við nemum ljós á annarri bylgjulengd en þeirri sýnilegu og ummyndum það beint í hljóð, án þess að eiga frekar við merkið,“ útskýrir Kristján Klausen tæknistjóri og annar tveggja stofnenda Elf Tech. Kristján er meistaranemi í eðlis­fræði með grunn í jarðeðlisfræði og hefur starfað hjá Íslenskum orkurannsóknum og Veðurstofu Íslands samhliða námi. Framkvæmdastjóri Elf Tech og stjúpbróðir Kristjáns er Þórður Bjarnason sem á langan feril að baki í ferðaþjónustu og rekstri.

Elf Tech er eitt af sjö fyrirtækjum sem valin voru til þátttöku í viðskiptahraðlinum Start­up Energy Reykjavík 2016. „Við höfum fengið mikinn meðbyr og góða leiðsögn ásamt því að kynnast frábæru fólki með þátttöku okkar í Startup Energy Reykjavík,“ segir Þórður.

Áætlað er að um milljón ferðamenn komi til Íslands yfir norðurljósatímabilið í ár og að rúmur þriðjungur þeirra greiði fyrir norðurljósaferð. Norðurljósin eða aurora borealis eru sýnileg í grennd við heimskautsbauginn í löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland og Kanada. Ljósin eru einnig sýnileg á suðurhveli jarðar en bera þá nafnið aurora australis og sjást í Suður-Ástralíu og löndum á borð við Nýja-Sjáland, Chile og Argentínu.

Aurorafy kemur á markað haustið 2017 sem viðbót við skipulagðar norðurljósaferðir á jeppum eða rútum. Kristján og Þórður sjá jafnframt fyrir sér að varan Aurorafy geti auðgað norðurljósaupplifun ferðamanna sem ferðast á eigin vegum um Ísland og leigja bíla, gista á hótelum eða jafnvel með heimsóknum í baðlaugar með því að nota vatnsheld heyrnartól.

Hægt er að hlusta á tóndæmi og fylgjast með framvindu Aurorafy á Facebook-síðunni https://www.facebook.com/AurorafyIceland.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband í gegnum www.aurorafy.is.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×