Fótbolti

Hjörtur vonast til að fara að spila sem fyrst fyrir Bröndby

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hjörtur í landsleik gegn Grikklandi.
Hjörtur í landsleik gegn Grikklandi. vísir/getty
Hjörtur Hermannsson, landsliðsmiðvörðurinn ungi, á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir danska liðið Bröndby sem hann samdi við fyrir Evrópumótið í Frakklandi.

Hjörtur var í íslenska landsliðshópnum á EM 2016 en hann yfirgaf PSV Eindhoven í Hollandi eftir síðustu leiktíð og samdi við Bröndby eftir að vera á láni hjá Gautaborg seinni hluta síðustu leiktíðar.

Þessi 21 árs gamli varnarmaður var ekki í leikmannahópi Bröndby í fyrsta leik liðsins í dönsku úrvalsdeildinni sem var spilaður aðeins nokkrum dögum eftir að Ísland féll úr leik á HM.

Hann sat svo allan tímann á bekknum í sigri á Silkeborg um helgina en hann vonast nú til að fara að komast í liðið og spila.

„Vonandi get ég farið að taka þátt í baráttunni en ég kom auðvitað til liðsins mun seinna þar sem ég fékk frí eftir EM,“ segir Hjörtur við 3point.dk. „Ég er að komast í betra stand og mér líður vel eins og staðan er.“

Hjörtur er 21 árs gamall og á að baki þrjá landsleiki fyrir A-landsliðið en hann er fastamaður í U21 árs landsliði Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×