Skoðun

Hjálp

Stefán Ingi Stefánsson skrifar
Grafalvarlegt ástand ríkir nú í yngsta ríki heims, Suður-Súdan. Átök hafa hrakið fleiri en 1,5 milljónir manna á flótta þar sem sjúkdómar, hungur, ótti og óvissa verða veruleiki þeirra. Af þessum fjölda fólks er yfir helmingurinn börn. Börn eins og öll önnur börn. Börn sem nú búa við ólýsanlega neyð og hafa mörg hver orðið vitni að skelfilegum hlutum.

Ef þar með væri sögunni lokið, ekkert væri hægt að gera til að bæta ástandið og þar við sæti, lifðum við í nöturlegum heimi. En sem betur fer getum við gert svo margt. Við getum varið réttindi þessara barna og bjargað lífi þeirra.

En til þess þurfum við hjálp. Allt starf UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, er byggt á frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Með ykkar hjálp getum við veitt börnum sem búa við neyð lífsnauðsynlega aðstoð.

UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun fyrir börn í Suður-Súdan fyrir rúmum mánuði. Á þeim tíma hafa safnast 17 milljónir sem sýnir svo ekki verður um villst að hér á landi vill fólk hlúa að velferð og lífi barna, sama hvar í heiminum þau kunna að búa.

Lyfjafyrirtækið Alvogen er dyggur stuðningsaðili UNICEF og skapaði vettvang fyrir fólk til að láta gott af sér leiða með því að halda afar vel heppnaða styrktartónleika í Hörpu. Skipulagning, framkvæmd og kostnaður við tónleikana var í höndum Alvogen svo allur ágóði rann óskiptur til UNICEF. Að auki styrkti Alvogen söfnunina beint ásamt fjölmörgum öðrum fyrirtækjum.

Slíkur samhugur er okkur sem störfum við hjálparstörf hér í Suður-Súdan mikill innblástur. Ég vil því koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem styðja starf UNICEF með einum eða öðrum hætti, nú þegar ótal börn takast á við miklar áskoranir. Ástandið í landinu er enn mjög erfitt viðureignar og mikil óvissa ríkir um framhaldið. Við höldum því ótrauð áfram. Saman getum við bjargað lífi barna.

Kærar þakkir fyrir að vera með okkur í liði.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×