Enski boltinn

Hittast Guardiola og Messi hjá City í sumar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi og Pep Guardiola þekkjast vel.
Lionel Messi og Pep Guardiola þekkjast vel. Vísir/Getty

Svo gæti farið að þeir Pep Guardiola og Lionel Messi verði mögulega í sama liðinu á nýjan leik á næsta keppnistímabili en báðir eru orðaðir við Manchester City í slúðurpressunni í Englandi og á Spáni.

Spænska útvarpsstöðin Cope fullyrti í gær að Pep Guardiola væri búinn að ákveða að fara frá Bayern München þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar og að hann ætli að taka við Manchester City.

Sjá einnig: Paul Scholes: Guardiola verður stjóri Manchester City

Manuel Pellegrini á hins vegar tvö ár eftir af samningi sínum við City en forráðamenn liðsins munu ekki setja það fyrir sig samkvæmt fréttum ytra. Enn fremur er fullyrt að þegar liggi fyrir að Carlo Ancelotti muni taka við Bayern eftir að Guardiola fer.

The Sun slær því svo upp í dag að forráðamenn City eru reiðubúnir að greiða Lionel Messi, leikmanni Barcelona, gríðarlegar fjárhæðir í laun til að lokka hann til félagsins. Fullyrt er að City muni bjóða Messi 800 þúsund pund í vikulaun - jafnvirði 160 milljóna króna.

Sjá einnig: Spænski skatturinn að hrekja Messi í ensku úrvalsdeildina

Messi hefur þurft að standa í málaferlum vegna skattamála á Spáni og er því sagður reiðubúinn að líta í kringum sig eftir að hafa verið hjá Barcelona allan sinn feril. Undir stjórn Guardiola var lið Barcelona, með Messi fremstan í flokki, nánast ósigrandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×