Innlent

Herjólfur ferjar 300 þúsund farþega í ár

Það hefur heldur betur glæðst mannlífið í Heimaey eftir að Landaeyjahöfn var tekin í notkun enda stöðugur straumur af farþegum út í Eyjar.
Það hefur heldur betur glæðst mannlífið í Heimaey eftir að Landaeyjahöfn var tekin í notkun enda stöðugur straumur af farþegum út í Eyjar. Mynd/Stefán
Theodóra Ágústsdóttir
Útlit er fyrir að Herjólfur ferji 300 þúsund farþega til og frá Vestmannaeyjum í ár en til samanburðar má geta þess að þessi fjöldi var einungis 120 þúsund síðasta árið sem Herjólfur tók höfn í Þorlákshöfn.

Í fyrra fóru 220 þúsund farþegar með skipinu en það lagði í fyrsta sinn við Landeyjahöfn þann 20. júlí það ár. Ferðir þangað voru þó stopular á tímabili í fyrravetur.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir þessa fjölgun farþega hafa haft gífurleg áhrif á mannlíf, þjónustu og atvinnulífið í Vestmannaeyjum. „Ég hef búið alla mína tíð hér í Eyjum, fyrir utan nokkur ár þegar ég þurfti að sækja mér menntun annars staðar, og ég hef ekki séð bæinn minn í öðru eins lífi og ljóma,“ segir hann. Hann segir að nokkur ný fyrirtæki hafi sprottið upp í kjölfar þessa þunga sem kominn er í umferðina út í Eyjar og eldri fyrirtæki hafi eflst mjög.

Hólmgeir Austfjörð, eigandi veitingastaðarins Topp pizza, segist finna vel fyrir þessum breytingum á eigin skinni. „Á meðan Herjólfur fer í Landeyjahöfn er fullt hérna hjá mér frá ellefu að morgni og fram á kvöld,“ segir hann. „Þegar skipið fer til Þorlákshafnar fæ ég nokkra hausa í hádeginu og svo kemur einstaka maður eftir það.“ Hann segir að nú fái hann um 2.000 til 2.500 gesti á viku en þegar Herjólfur komst ekki til Landeyjahafnar á tímabili síðastliðinn vetur hafi hann fengið um 40 gesti á viku.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem skaut upp kollinum eftir að Landeyjahöfn var tekin í notkun er fataverslunin Salka. Hún var opnuð í nóvember síðastliðnum og segir Theodóra Ágústsdóttir afgreiðslukona að þá hafi fólk af Suðurlandi komið til að gera jólainnkaupin í Eyjum. „Svo finnur maður alveg hvernig holskeflan skellur hér á um leið og Herjólfur kemur úr fyrstu ferðinni klukkan ellefu, þá byrjar umferðin,“ segir hún.

Þau Theodóra og Hólmgeir taka undir með bæjarstjóranum og segja að merkja megi þessa þungu umferð á mannlífinu í bænum. „Hér er setið við hvert borð úti við kaffihúsin, þannig að þetta setur skemmtilegan svip á bæinn,“ segir Theodóra.

jse@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×