Innlent

Herdís Egilsdóttir fær Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2008 voru afhent í hátíðardagskrá í hátíðasal Háskóla Íslands í dag. Auk þess voru einnig veittar sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti Herdísi Egilsdóttur kennara Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2008.

„Með hverri kynslóð fæðist tungumálið upp á nýtt," segir í rökstuðningi ráðgjafanefndar. „Það þroskast og þróast með nýjum notendum. Tungan er um leið framandi strönd landnema sinna. Grunnskólakennarar þjóðarinnar eru leiðsögumenn í þeirri för".

Herdís Egilsdóttir fæddist á Húsavík árið 1934 og var styrkt til náms við Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún lauk stúdentsprófi árið 1952 og ári síðar lauk hún kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Árið 1953 hóf hún kennslustörf við Skóla Ísaks Jónssonar og lét af störfum þar árið 1998 eftir 45 ár. Herdís hefur samið fjölbreytt efni fyrir börn, jafnt í máli sem myndum og tónlist, en eftir hana liggur á annan tug barnabóka auk tímaritsgreina. Einnig hefur hún samið efni fyrir útvarp, sjónvarp og leikhúsin í landinu.

Á seinni árum er Herdís einna kunnust fyrir verkefni sitt „Litlir landnemar", þar sem leitað er svara við margvíslegum spurningum. Hvernig verður þjóð til? Hvernig kemur þjóð sér upp mannsæmandi lífsskilyrðum? Hvernig velur hún og hafnar eftir aðstæðum og efnahag? Hvernig bregst hún við óæskilegum aðstæðum og freistingum og hvaða gildi hefur hún í hávegum? Verkefnið „Litlir landnemar" fjallar um líf nútímafólks í landi þar sem allt vantar nema gjafir náttúrunnar. Nemendur stofna nýtt samfélag á fjarlægri eyju úti í hafi og þurfa að gera ráð fyrir öllum þeim mögulegu og ómögulegu aðstæðum sem upp koma við landnám. Þannig glíma ungir námsmenn við að móta sitt eigið samfélag með yfirsýn og fjölbreytilegum sjónarmiðum og án þess að einblína á lausnir talnakúnstarinnar. Mannauður þjóðarinnar býr í grunnskólum landsins. Það hefur löngum verið hlutverk barnakennara að ávaxta þennan auð. Það er fulltrúi þeirra sem við heiðrum í dag fyrir hæfileika hennar til að kveikja ljós, áhuga og þorsta eftir þekkingu - til að virkja orkustöðvar æskunnar og veita henni staðgott vegarnesti í hretviðrum lífsins.

Herdís Egilsdóttir hlaut í verðlaun eina milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í hátíðarbandi.

Í reglum menntamálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Menntamálaráðherra ákvað að veita tvær viðurkenningar 2008. Önnur er veitt Landnámssetri Íslands í Borgarnesi og hina fær Útvarpsleikhúsið.

Á heimasíðu menntamálaráðuneytisins eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×