Enski boltinn

Henrik Larsson sér bara eftir einum hlut á ferlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Larsson fagnar marki með Manchester United árið 2007.
Henrik Larsson fagnar marki með Manchester United árið 2007. vísir/getty
Henrik Larsson, einn besti fótboltamaður Svíþjóðar frá upphafi, sér aðeins eftir einum hlut á annars glæstum ferli. Hann sér eftir því að hafa ekki fengið gullverðlaun fyrir sigur í ensku úrvalsdeildinni með Manchester United.

Sænski framherjinn, sem lagði skóna á hilluna árið 2009 eftir 21 árs langan feril, var á láni hjá United í tvo mánuði seinni hluta tímabils 2006/2007 og skoraði þar þrjú mörk í þrettán leikjum.

Hann átti sinn þátt í að koma United aftur á toppinn en þetta tímabil endurheimti liðið titilinn sem það hafði ekki unnið síðan 2003.

Larsson fór aftur til Helsingborgar í mars 2007 og kláraði því ekki tímabilið með United. Hann segir núna að hann óskar þess að hafa framlengt lánssamning sinn við enska félagið.

„Ég hefði átt að vera áfram því þá hefði ég fengið medalíu fyrir að vinna ensku úrvalsdeildina. Það er það eina sem ég sé eftir á mínum ferli,“ segir Larsson í viðtali við Four Four Two.

„Ég hefði líka framlengt samninginn um eitt ár til viðbótar en ég var samningsbundinn Helsingborg og mér finnst að þegar þú ert búinn að skrifa undir samning þá verðurðu að virða hann,“ segir Henrik Larsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×