Fótbolti

Helgi: Úkraínumenn fljótir að refsa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla.
Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla. Vísir/Jóhanna
Helgi Kolviðsson, nýr aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, fór vel yfir lið Úkraínu á blaðamannafundi KSÍ í dag en þá var leikmannahópur Íslands fyrir leikinn gegn Úkraínu þann 5. september kynntur.

Úkraína tapaði öllum leikjum sínum á EM í Frakklandi en Helgi segir að liðið hafi verið óheppið og sé með gríðarlega sterka leikmenn í sínum röðum. Helgi fylgdist vel með Úkraínu á EM í sumar en þar starfaði hann sem leikgreinandi fyrir íslenska liðið.

„Þeir eiga sterka einstaklinga eins og Yevhen Konoplyanka og Andryi Yarmalenko en það er í raun allt liðið sem við þurfum að bera virðingu fyrir,“ sagði Helgi í samtali við Vísi eftir fundinn í dag.

„Þeir eru með mikinn hraða, eru líkamlega sterkir og sérstaklega hættulegir í skyndisóknum. Þegar andstæðingur þeirra tapar boltanum geta þeir verið mjög fljótir að refsa.“

Helgi segir að gegn liðum eins og Úkraínu þurfi að nýta færin vel og vera afar skipulagðir.

„Úkraínumenn eru óánægðir eftir sumarið. Þeir höfðu unnið alla leiki sína fyrir EM í sumar og voru óheppnir að lenda á heimsmeisturum Þýskalands í fyrsta leik sínum. Eftir það var þetta erfitt hjá þeim.“

Nánar verður rætt við Helga og Heimi Hallgrímsson, landsliðsþjálfara, í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Viðar Örn aftur í landsliðið

Fáar breytingar gerðar á hópnum sem fór til Frakklands í sumar. Ísland mætir Úkraínu í byrjun september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×