Skoðun

Heimilisofbeldi – ráðlegg-ingar barna til annarra barna í sömu stöðu

Guðrún Kristinsdóttir skrifar

Nú er viðurkennt að heimilisofbeldi nær til alls heimsins og snertir marga. Hér á landi beindist kastljósið fyrst að konum sem eru í meirihluta þeirra sem verða fyrir ofbeldinu og baráttan gegn því sést iðulega í starfi Stígamóta og Kvennaathvarfs og fleiri aðila. Vandinn er margþættur og hefur t.d. ítrekað verið bent á hægfara viðbrögð réttarkerfisins í kæru- og dómsmálum.

Tiltölulega nýlega vaknaði umræða um heimilisofbeldi gegn körlum, samkynhneigðum og á heimilum fatlaðs fólks og um nauðsyn á kröftugum viðbrögðum við þessu. Ofbeldið leynist því víðar en áður var rætt um.

Samtökin Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru meðal þeirra sem hafa haft forgöngu um að vekja athygli á alvarleika heimilisofbeldis fyrir börn sem verða vitni að því. Samtökin rannsökuðu snemma hvaða stuðningur væri í boði fyrir börn. Þau ályktuðu í kjölfarið að efla þyrfti þekkingu þeirra aðila, sem eru í beinum tengslum við börn á því hvernig best sé að ræða við þau og um nauðsyn þess að greiða aðgang að sérmenntuðu fagfólki. Barnaheill hafa fylgt málinu eftir og minnt reglulega á það með vísan í stöðuna hér og alþjóðlega.

Reynsla barna sjálfra af því að búa við ofbeldi á heimili hér á landi birtist í bókinni „Ofbeldi á heimili. Með augum barna“ sem kom út fyrir tæpu ári og hlaut margs kyns viðurkenningar. Höfundar eru kennarar og fyrrverandi nemar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Bókin er innlegg í baráttuna gegn þeirri kúgun sem felst í heimilisofbeldi. Þar er fjallað um vitneskju barna almennt og um reynslu barna og mæðra sem búa við heimilisofbeldi. Meðal spurninga sem fengist er við eru: Hvaða vitneskju hafa börn um heimilisofbeldi? Hvernig bregðast þau við því? Hvaða áhrif hefur ofbeldið? Hvernig finnst börnum samfélagið bregðast við? Hvað segja prentmiðlar um heimilisofbeldi?

Viðvarandi ótti

Leitað var til barnanna sjálfra til að athuga vitneskju þeirra og reynslu af heimilisofbeldi. Í ljós kom að mörg börn á Íslandi þekkja til þess og taka afstöðu gegn því. Því má fullyrða að grunnskólabörn gera sér góða grein fyrir heimilisofbeldi.

Í bókinni segja börn og unglingar sem rætt var við, á aldrinum 9 til19 ára, líka ítarlega frá reynslu sinni og viðbrögðum og einnig mæðurnar, sem bjuggu við langvarandi ofbeldi. Rannsóknin, sem lá að baki, staðfesti með óyggjandi hætti hve mikil og alvarleg áhrif ofbeldið hefur á þessum heimilum. Ótti var viðvarandi meðal barnanna sem voru sífellt á verði. Sumar fjölskyldur höfðu fengið hjálp en hún barst yfirleitt seint, jafnvel að mörgum árum liðnum. Börnin voru því sum mjög reið yfir aðgerðaleysi fullorðinna, s.s. barnaverndar, skóla og lögreglu.

Í bókinni eru birtar ráðleggingar til annarra barna um viðbrögð við ofbeldi á heimili. Börnin sem segja frá vilja gefa öðrum í sömu stöðu ráð. Hér eru nokkur dæmi: Láta vita af ofbeldinu; tala við aðra sem eru líklegir til að gera eitthvað í málinu; segja frá líðan sinni og kæra ofbeldið. Ráðsnilldin felst ekki síst í því að þau segja öðrum börnum að: Vera sterk; láta ofbeldið ekki taka yfir líf sitt; nota reynsluna til einhvers góðs; vera við öllu búin og vita hvað þau ætli að segja þegar þau hringja í 112, eins og hvar þau eigi heima og hverjir búi þarna. Þetta eru frábær ráð en fullorðnir bera fyrst og fremst ábyrgð á að stoppa ofbeldið. Munum að sum börn eru hljóð og þora ekki að segja frá. Þeim þarf að koma til hjálpar. Má þar nefna að enn vantar aðgengilega ráðgjöf fyrir börnin sjálf og áðurnefnd ályktun Barnaheilla um fagfólkið er í fullu gildi.

Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×