Innlent

Heimavarnarliðið sver af sér sprengjumálið

Lögreglan ber út heimavarnarliðið í Breiðagerði fyrr í mánuðinum.
Lögreglan ber út heimavarnarliðið í Breiðagerði fyrr í mánuðinum.
„Það var enginn úr okkar hópi sem kom að þessu," segir Páll Heiðar Magnússon Aadnegar, sem er í Heimavarnarliðinu svokallaða, en uppi var sú kjaftasaga að það væri einhver meðlimur félagskaparins sem hefði búið til sprengju og sprengt á Hverfisgötunni snemma í morgun.

Misskilningurinn var til kominn vegna pólitískra veggspjalda sem hengu víða á húsum í kringum sprengjuna. Á plakatinu má finna persónugreinanlegt fólk og á því miðju stendur. „Eftirlýst útburðarhyski".

Svo er óskað eftir upplýsingum um fólkið sem finna má á veggspjaldinu, sem var meðal annars hengt á innanríkisráðuneytið í nótt.

Svo virðist sem þetta tvennt tengist ekki. í það minnsta kannast Páll Heiðar ekki við tengslin, þó hann játi að hann þekki lágvaxna og feitlagna menn. „Ég þekki fullt af þannig mönnum," segir hann og hlær.

Spurður út í veggspjaldið, og hvað félagsskapurinn hyggst gera við upplýsingarnar segist Páll ekki vera með það á hreinu. Fólkið á veggspjaldinu er talið hafa komið að útburði í Breiðagerði 7 þann 17. Janúar 2012.

Spurður hvort þessir aðilar megi eiga von á hefndaraðgerðum félagsskaparins svarar Páll Heiðar: „Þeir eiga allavega ekki von á sprengju."

Þegar fréttastofa hafði samband við Persónuvernd vegna veggspjaldsins fengust þau svör að þeim hefði ekki borist kvörtun enn sem komið er. Hitt væri að ef um persónugreinanlegar upplýsingar sé að ræða, þurfi að kanna hvort þær standist lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×