Skoðun

Heill og sæll

Gerður Sjöfn Ólafsdóttir skrifar
Heill og sæll, hr. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Í ljósi þess að sjóður til félagslegrar túlkunar fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda er uppurinn sé ég mig knúna til þess að senda þér þetta bréf.

Ég starfa sem táknmálstúlkur og hefur það verið mitt aðalstarf frá 1997. Margt gott hefur áunnist á þessum 17 árum og er það vel.

En mig setur hljóða þegar  enn og aftur fást þau svör að ekki verði aukið við fjármagn í þennan sjóð sem gefur heyrnarlausum (döff)  kost á að vera fullgildir þátttakendur í því samfélagi sem við búum í. Í raun er gerð ákveðin krafa af hálfu samfélagsins um þátttöku allra, en möguleikinn til þess nú er frá þessum hópi tekinn. Í fréttum RÚV í gær kom fram að þér þætti eðlilegast að forgangsraðað yrði úr sjóðnum og því spyr ég þig, hvernig á að forgangsraða ? Fjármagnið sem til ráðstöfunnar er, eru 18.000.000 og í sjóðinn sækja u.þ.b. 200 einstaklingar sem gerir þá 9 tíma á ári á mann.

Hvert og eitt okkar er í mörgum hlutverkum á hverjum degi: foreldri, maki, systir/bróðir, vinur,  vinnufélagi og fleira. Öllum þessum hlutverkum fylgja ákveðnar skyldur sem við hugsum dags daglega ekki mikið um hvernig við framfylgjum, en sá sem þarf á þjónustu táknmálstúlks að halda neyðist til að gera það.

Nú spyr ég þig Illugi, hvernig myndir þú forgangsraða þessum 9 tímum sem til umráða eru milli þeirra hlutverka sem þú gegnir?

Ég veit að ég gæti það ekki .

Krafan um að það verði fundin endanleg lausn á þessu máli er ekki krafa um lúxus, hún er krafa um að fá að sinna skyldum sínum rétt eins og hvert og eitt okkar gerir, hún er krafa um að fá að vera fullgildir einstaklingar með öllum þeim réttindum og skyldum sem það hefur í för með sér.

Er  það til of mikils mælst?

Eitt er það sem oft gleymist í umræðunni,  en það er að þjónusta táknmálstúlka er ekki eingöngu fyrir táknmálstalandi  (döff) einstaklinga , heldur einnig fyrir þá sem ekki tala táknmál. Með því að skerða túlkaþjónustu í daglegu lífi er því ekki aðeins verið að draga úr lífsgæðum döff fólks, heldur líka þeirra heyrandi einstaklinga sem hefðu getað átt í samskiptum við þau

Með vinsemd og virðingu

Gerður Sjöfn Ólafsdóttir

Táknmálstúlkur




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×